Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kennarar fagna starfsþróunartækifærum

  - myndMynd/Menntafléttan

Rúmlega 920 kennarar af öllum skólastigum og -gerðum hafa skráð sig á starfsþróunarnámskeið á vegum Menntafléttunnar næsta vetur og hefur aðsóknin farið fram úr björtustu vonum.

„Viðtökur þessa verkefnis hafa verið frábærar og þegar hafa rúmlega 200 manns lokið fyrstu 6 námskeiðunum. Menntafléttan er mikilvægur liður í aðgerðum okkar til þess að auka sérhæfða þekkingu og hæfni meðal kennara og miðla skilvirkum aðferðum sem taka mið af fjölbreyttum nemendahópum og styðja við innleiðingu nýrrar menntastefnu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Menntafléttan er samstarfsverkefni sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands leiðir í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Kennarasamband Íslands. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir verkefnið og nemur heildarframlag til þess alls 131 milljónum kr.

Fjölbreytt námskeið eru í boði fyrir fyrir kennara, starfsfólk og stjórnendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum, listaskólum og frístundastarfi. Námskeiðin eru gjaldfrjáls og einnig haldin í fjarnámi og henta því þátttakendum um allt land.

Á námskeiðunum er byggt á niðurstöðum rannsókna um stöðu nemenda í íslensku menntakerfi. Þau byggja á hugmyndafræði lærdómssamfélagsins þar sem starfsþróun er samofin daglegu starfi og þátttakendur læra markvisst hver af öðrum. Námskeiðin eru sett þannig upp að þau sé hægt að sækja og sinna með fullri vinnu.

Upplýsingar um fyrirkomulag námskeiðanna má nálgast á vef Menntafléttunnar. Unnið er að því að þróa fleiri námskeið sem í boði verða haustið 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum