Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2021 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Rafræn ferilbók í notkun og fyrstu rafrænu námssamningarnir undirritaðir

Máney Eva Einarsdóttir og Jón Freyr Eyþórsson nemar í rafvirkjun urðu í dag fyrstu iðnnemarnir til að undirrita rafræna iðnnámssamninga í símanum sínum, eftir að umfangsmiklar kerfisbreytingar á iðnnáminu voru innleiddar að áeggjan Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Notkun rafrænna ferilbóka er hryggjarstykkið í þeim umfangsmiklu breytingum.

Ásamt nemendunum skrifuðu undir samninginn þau Helgi Rafnsson, raffræðingur og framkvæmdastjóri Rafholts, og Guðrún Randalín Lárusdóttir, aðstoðarskólameistari Tækniskólans. 

„Ferilbókin er tákngervingur grundvallarbreytinga í iðnnámi og síðasta púslið í iðnbyltingunni sem hefur átt sér stað á kjörtímabilinu. Við höfum breytt viðhorfum í garð iðnmenntunar, aukið áhuga fólks á öllum aldri á iðnnámi, aukið réttindi iðnmenntaðra og jafnræði nemenda og kappkostað að bæta þjónustu við þá. Endurskoðun á inntaki námsins er ómetanleg og með ferilbókinni verður bylting í samskiptum nema og meistara. Hún eykur gæði iðnnáms, tryggir aukið samræmi innan iðngreina og að þjálfunin miðist enn betur við þarfir atvinnulífsins,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Breytingarnar á iðnmenntakerfinu eru afrakstur pólitískrar stefnumótunar og góðs samstarfs við lykilaðila, bæði í skólakerfinu og atvinnulífi iðnaðarins. Samstarfið hefur verið náið og markast af velvilja þeirra sem komið hafa að máli. Þannig hafa tugir/hundruð einstaklinga í faghópum og starfsgreinaráðum iðngreinanna endurskoðað starfalýsingar og hæfniskröfur, í samræmi við reglugerð ráðherra um vinnustaðanám sem tók gildi 1. ágúst.

Rafrænar ferilbækur halda utan um námsframvindu iðnnema og hæfniþætti þess starfs sem nemandinn lærir til. Ferilbækurnar eru um leið samskiptavettvangur nemandans, skólans og vinnustaðarins þar sem starfsnámið fer fram og einfaldar allt utanumhald og skýrir ábyrgð hvers og eins.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir það mikið fagnaðarefni að rafræn ferilbók sé nú orðin að veruleika enda hafi SI auk félagsmanna lengi barist fyrir því.

„Það er óhætt að segja að hér sé um byltingu að ræða í allri framkvæmd vinnustaðanáms. Skipulag verður einfaldara og eftirfylgni með náminu verður betri. Allar þær umbætur á iðnnámi sem menntamálaráðherra hefur komið til leiðar að undanförnu eru til þess gerðar að auka gæði námsins og greiða götu nemenda sem sýnir sig meðal annars í aukinni aðsókn. Rafræn ferilbók mun án efa styrkja allt vinnustaðanám og um leið vinnumarkaðinn enda er iðnmenntað fólk eftirsótt til vinnu,“ segir Sigurður.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira