Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vinna hafin á grundvelli þingsályktunar um Heiðarfjall

Herminjar á Heiðarfjalli - myndBergþóra Njála

Alþingi samþykkti í vor þingsályktun þar sem umhverfis- og auðlindaráðherra var falið að gangast fyrir rannsókn á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni á Heiðarfjalli og gera tímasetta áætlun um kostnað og hreinsun á úrgangs- og spilliefnum á svæðinu. Að mati Umhverfisstofnunar er þörf á tilteknum rannsóknum á Heiðarfjalli áður en hægt verður að gera áætlunina sjálfa.  

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra greindi frá því á ríkisstjórnarfundi í dag að umhverfis-og auðlindaráðuneytið muni fjármagna vinnu ráðgjafa við gerð kostnaðaráætlunar vegna rannsókna á forvinnu og hreinsun á Heiðarfjalli. Ráðherra mun upplýsa ríkisstjórn um kostnaðaráætlun vegna frekari rannsókna á Heiðarfjalli þegar hún liggur fyrir.

Á Heiðarfjalli er mikið magn spilliefna en þar var starfrækt eftirlitsstöð á vegum Bandaríkjahers á árunum 1957 til 1970.

Að mati Umhverfisstofnunar er mest aðkallandi að gera rannsókn á grunn- og yfirborðsvatninu á svæðinu, þar sem slíkt hefur ekki verið gert samkvæmt skýrslu sem unnin var af Environmental Science Group, rannsóknarteymis á vegum Royal Military College KingstonOntario í Kanada, árið 2019.

Þær rannsóknir sem ráðast þarf í fela meðal annars í sér sýnatökur og rannsóknir á umfangi mengunar á svæðinu. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun setji upp skilti nú í haust með upplýsingum um mengunarhættu á svæðinu.

„Málið er nú komið í góðan farveg, en ég lít á mengun vegna athafna Bandaríkjahers á sínum tíma alvarlegum augum“, segir Guðmundur Ingi. „Á Íslandi voru reknar nokkrar ratsjárstöðvar á vegum Bandaríkjahers ásamt öðrum hernaðarmannvirkjum. Að mati sérfræðinga okkar er ekki ólíklegt að um áþekkt mengunarálag sé að ræða á þessum stöðum og að jafn mikil þörf sé á samskonar úttektum og rannsóknum á þeim svæðum eins og á Heiðarfjalli, og þar gæti heilmikil vinna beðið okkar.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira