Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstöfun rúmlega 100 milljóna króna til geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungt fólk

Landspítali - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 102 milljónum króna í tiltekin þverfagleg átaksverkefni á vegum Landspítala sem miða að því að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungt fólk. Meðal þessara verkefna eru gagnreynd námskeið í félagsfærni hjá BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítala), fjölgun greiningarviðtala hjá BUGL fyrir börn með mögulega röskun á einhverfurófi samfara öðrum geðrænum vanda til að stytta bið eftir greiningu, auk markvissra aðgerða til að stytta bið eftir þjónustu þunglyndis- og kvíðateymis geðþjónustu Landspítala, þjónustu átröskunarteymisins og þjónustu áfallateymisins.

Heimsfaraldur Covid-19 hefur skapað ýmis vandkvæði við veitingu þeirrar þjónustu sem hér um ræðir og samhliða hefur eftirspurn eftir tilteknum þjónustuþáttum aukist. Biðtími eftir þjónustu hefur lengst af þessum sökum og eru vonir bundnar við að með þessu átaki megi stytta bið og efla þjónustuna.

BUGL: Á BUGL verður greiningarviðtölum vegna röskunar á einhverfurófi samfara öðrum vanda fjölgað. Auk þess verður þjónusta átröskunarteymis BUGL eflt með aukinni mönnun og mun sérhæfður starfsmaður veita fræðslunámskeið fyrir foreldra barna og ungmenna með átröskun sem eru í bið eftir þjónustu BUGL, auk þess að sinna beiðnum um fræðslu og stuðning við fagfólk sem sinnir meðferð notenda innan fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu.

Þunglyndis og kvíðateymi Landspítala: Hjá þunglyndis- og kvíðateyminu eru nú um 70 notendur sem bíða greiningar og meðferðar og af þeim eru rúmlega 40 á aldrinum 18 – 30 ára. Stefnt er að því að stytta bið eftir þjónustu teymisins um helming með tímabundinni styrkingu þess, auk þess sem boðið verður upp á HAM-hópmeðferð fyrir aldurshópinn 18 – 30 ára utan hefðbundins vinnutíma.

Átröskunarteymi geðþjónustu Landspítala: Hjá átröskunarteyminu bíða nú um 88 sjúklingar eftir meðferð teymisins, þar af um 64 á aldrinum 18 – 30 ára. Áætlaður biðtími eftir meðferð er 18 – 20 mánuðir. Ráðist verður í tilraunaverkefni þar sem starfsmenn teymisins veita þeim sem eru á biðlista hópmeðferð utan dagvinnutíma og verður teymið styrkt tímabundið í þessu skyni. Áætlað er að þessi meðferð geti nýst um 80% þeirra sjúklinga sem eru á biðlista.

Áfallateymi geðþjónustu Landspítala: Bið eftir þjónustu áfallateymisins hefur lengst jafnt og þétt á liðnum árum og að mati Landspítala er líklegt að hann lengist enn frekar vegna Covid-19 í ljósi vísbendinga um að heimilisofbeldi hafi aukist í faraldrinum. Mikilvægt er að bið eftir áfallameðferð sé sem styst því þekkt er að alvarleg áfallastreitueinkenni geta haft alvarlegar afleiðingar ef viðkomandi fá ekki gagnreynda meðferð sem fyrst. Til að stytta biðlista munu starfsmenn sem þjálfaðir eru í greiningarviðtöl taka slík viðtöl utan hefðbundins vinnutíma. Sérstök áhersla verður lögð á aldurshópinn 18 – 30 ára.

Fjármunir til þessara verkefna koma af fjáraukalögum í samræmi við ákvörðun Alþingis síðastliðið vor um að veita samtals 150 milljónir króna í verkefni sem hafa að markmiði að auka við mikilvæga þjónustu á sviði geðheilbrigðismála fyrir börn og ungt fólk. Um 48 milljónum króna er enn óráðstafað í þessu skyni. Unnið að því að finna þeim farveg í þjónustu sem kemur að sem bestum notum fyrir þennan markhóp og verður nánar greint frá því síðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum