Hoppa yfir valmynd
3. september 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Grænbók um fjarskipti birt að loknu samráði

Grænbók um fjarskipti, þar sem metin er staða málaflokksins og lagður grundvöllur fyrir endurskoðaða stefnumótun í fjarskiptum til fimmtán ára, hefur verið birt á vef ráðuneytisins. Grænbókin var opin til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda frá 7. júlí til 11. ágúst sl. og alls bárust 8 umsagnir. Skýrsla um samráðið hefur verið birt á samráðsgátt stjórnvalda.

Ísland hefur náð góðum árangri á sviði fjarskipta, en þó er margt hægt að bæta. Góð fjarskipti eru lykilþáttur í að stuðla að því að Ísland sé í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Meginmarkmið áætlana samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis eru m.a. að þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins og stuðli að sjálfbærum byggðum um land allt.

Grænbók um fjarskipti markar upphaf stefnumótunarferlis nýrrar fjarskiptaáætlunar. Viðfangsefni grænbókar er að hvetja til umræðu um stöðumat, viðfangsefni og framtíðarsýn á sviði fjarskipta, og á þeim grundvelli móta áherslur og valkosti. Stöðumatið er í framhaldi lagt til grundvallar stefnumótunar í málaflokknum.

Grænbók þessari er ætlað að veita upplýsingar um núverandi stöðu fjarskiptamála. Stöðumat grænbókarinnar byggir m.a. stöðu verkefna núgildandi fjarskiptaáætlunar, samráðsfundum með landshlutasamtökum, sem og samráðsfundum með öðrum ráðuneytum og samstarfsaðilum. Almenningi, haghöfum og hagsmunaaðilum hefur verið boðið að taka þátt og setja fram sín sjónarmið um stöðumatið.

Í fyrirhugaðri stefnu er ætlunin að mæta umtalsverðri og fyrirsjáanlegri tækniþróun, breyttum kröfum samfélagsins og taka mið af samhæfingu stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins. Undir málaflokkinn fjarskipti falla viðfangsefni Fjarskiptastofu, Úrskurðarnefndar fjarskiptamála, fjarskiptasjóðs, Þjóðskrár Íslands og yfirfasteignamatsnefndar eða með öðrum orðum fjarskipti og tiltekin málefni Þjóðskrár Íslands.

Stefna og áætlun á sviði netöryggismála verður áfram hluti stefnu og áætlunar í fjarskiptum. Undirbúningur og vinnsla netöryggisáætlunar hefur þó verið skilin frá undirbúningi fjarskiptaáætlunar, en verður felld inn í stefnu og áætlun um fjarskipti á síðari stigum með það fyrir augum að ráðherra mæli fyrir nýrri samhæfðri fjarskiptaáætlun á fyrri hluta árs 2022.

Næsta formlega skref stefnumótunar í fjarskiptum, sem hefst snemma á nýju kjörtímabili, verður gerð svokallaðrar hvítbókar - sem mun innhalda drög að eiginlegri stefnu með áherslum og aðgerðum. Almenningi, haghöfum og hagsmunaaðilum mun gefst kostur á að koma á framfæri ábendingum gagnvart drögum að hvítbók, áður en ráðherra mælir fyrir nýrri þingsályktun um fjarskiptaáætlun á Alþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira