Hoppa yfir valmynd
3. september 2021

Nýsköpun í matvælaframleiðslu efst á baugi á ráðstefnu Íslands og Singapúr

Auk utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávörpuðu ráðstefnuna meðal annarra þau Lim Thuan Kuan, sendiherra Singapúr gagnvart Íslandi, og Sigríður Snævarr, sendiherra Íslands gagnvart Singapúr. - myndÍslandsstofa.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði áherslu á nýsköpun til að mæta vaxandi matvælaþörf í ávarpi sínu á ráðstefnu Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins með stjórnendum og frumkvöðlum frá Íslandi og Singapúr.

Útlit er fyrir að matarþörf heimsins muni tvöfaldast fyrir árið 2050. Því verður að leita nýrra leiða til að framleiða næg matvæli fyrir ört vaxandi fólksfjölda án þess að raska jafnvægi náttúrunnar. Á fundi stjórnenda og frumkvöðla frá Íslandi og Singapúr sem fram fór í Hörpu og á vefnum var bent á ýmsar leiðir til þess. Nýsköpun og líftækni leika þar lykilhlutverk. Matvæli framtíðarinnar bíða handan við hornið.

Auk utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávörpuðu ráðstefnuna meðal annarra þau Lim Thuan Kuan, sendiherra Singapúr gagnvart Íslandi, og Sigríður Snævarr, sendiherra Íslands gagnvart Singapúr.

Rúmlega fimm hundruð manns í tveimur heimsálfum horfðu á beina útsendingu frá fundinum enda málefnið brýnt. „Nú þurfa allir að vinna saman til að ná settum markmiðum, hvort sem það er hið opinbera eða einkageirinn,” sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í ávarpi sínu.

„Við þurfum að nota þær diplómatísku leiðir sem eru fyrir hendi og tengingar í viðskiptalífinu. Ef við nýtum okkur ekki kraft einkageirans vegna stjórnmálalegra ástæðna, sem sumir stjórnmálamenn boða, munum við aldrei ná markmiðum okkar,“ sagði Guðlaugur Þór enn fremur.

Þótt höf og álfur skilji að er ríkur vilji milli ríkjanna til að vinna saman að framsækinni nýsköpun þegar kemur að matvælaframleiðslu framtíðarinnar. Tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki í löndunum tveimur eru fjölmörg.

„Nýsköpun í matvælaframleiðslu er lykilatriði og styður við sjálfbærni og efnahagslegar framfarir. Við þurfum að auka viðskipti okkar, samvinnu okkar hæfustu vísindamanna og deila tækniþekkingu okkar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Hægt er að nálgast upptöku frá fundinum á vef Íslandsstofu. Þar er hægt að fá greinargóða mynd af nýsköpun í löndunum tveimur og því hvernig matvælaframleiðslu framtíðarinnar verður háttað.

Allar upplýsingar um viðburðinn ásamt dagskrá og upptöku má nálgast hér

  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lagði áherslu á nýsköpun til að mæta vaxandi matvælaþörf í ávarpi sínu. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum