Hoppa yfir valmynd
3. september 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samantekt um tæknilega innviði og rafræna þjónustu hins opinbera

Í samræmi við ályktun Alþingis frá árinu 2019 um að stórefla vinnu í upplýsingatækni hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið unnið samantekt um verkefni sem unnin hafa verið þvert á stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

Ráðuneytið fer með stefnumótun stjórnvalda í upplýsingatækni og á vegum þess er einnig starfrækt Verkefnastofa um stafrænt Ísland sem vinnur að framgangi verkefna þvert á stofnanir ríkis og sveitarfélaga sem hafa að markmiði að efla stafræna þjónustu.

Skýrslan er í meginatriðum byggð upp í samræmi við áherslur þingsályktunarinnar en þar er fjallað um stefnumótun, tæknilega innviði Stjórnarráðsins, samþættingu og stöðlun, gögn, öryggi og gæði rafrænnar þjónustu.

Fyrsta stefnan um stafræna þjónustu birt

Fyrsta stefnan um stafræna þjónustu hins opinbera var birt á árinu, þar sem settur er rammi utan um þau verkefni sem unnið er að og með það markmið að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða heims á sviði stafrænnar þjónustu. Stefnan tekur til markmiða um aukna samkeppnishæfni samfélagsins, betri opinbera þjónustu, öruggari innviði og nútímalegra starfsumhverfi. Hún er leiðandi fyrir aðrar opinberar stefnur sem og stefnumarkandi ákvarðanir á þessu sviði og byggist á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um eflingu stafrænnar þjónustu sem samþykkt var 2019. Jafnframt er nýbúið að birta drög að stefnu um notkun skýjalausna í samráðsgátt stjórnvalda.

Innleiðing samræmds skrifstofuhugbúnaðar ríkisins

Í takt við stafræna stefnu stendur innleiðing yfir á samræmdum skrifstofuhugbúnaði ríkisins, sem unnið hefur verið að frá 2018. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, fyrir hönd A-hluta stofnana ríkisins, keypti hugbúnaðarleyfi fyrir Microsoft hugbúnaðarlausnir fyrir skrifstofuumhverfi alls starfsfólks en með þessu voru mörkuð stór skref í stafrænni umbyltingu á vinnuumhverfi starfsfólks hins opinbera með stórauknu aðgengi að upplýsingum og samvinnu milli fólks og stofnana.

Innleiðingarverkefnið er eitt stærsta sinnar tegundar sem ráðist hefur verið í á Íslandi og snertir nær allt starfsfólk í stjórnsýslunni og A-hluta stofnunum. Innleiðingin nýtist einnig mörgum nemendum í framhalds- og háskólum og snertir því í heild um 80 þúsund manns.

Í lok árs 2020 var búið að innleiða Microsoft hugbúnaðarleyfi fyrir 88% starfsfólks og nemenda. Framundan er áframhaldandi innleiðing en gerður var nýr fimm ára samningur við Microsoft sem gildir til ársins 2026 og felur hann í sér umtalsvert meira netöryggi fyrir stofnanir auk aðgangs að fleiri þjónustum Microsoft en áður fyrir alla.

Ísland.is – miðlæg þjónustugátt stjórnvalda

Vefurinn Ísland.is hefur verið skilgreindur sem sá staður þar sem hægt er að nálgast opinbera þjónustu með einföldum hætti og spara sporin með sjálfsafgreiðslu á netinu. Ný framsetning vefsins var opnuð í september 2020 en það ár bættust um 800 stafræn ferli við Ísland.is og fer þeim ört fjölgandi.

Í gáttinni á hver og einn einstaklingur og lögaðili sitt eigið pósthólf og hefur Alþingi samþykkt lagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um stafrænt pósthólf en þar er kveðið á um að gögn sem send eru í pósthólfið hafi sömu réttaráhrif og ef þau væru send með öðrum hætti, sem dæmi með bréfpósti á lögheimili eða skráð aðsetur. Með rafrænni auðkenningu getur hver og einn nálgast sitt eigið stafræna pósthólf í gáttinni. Gríðarleg fjölgun sendra skjala hefur orðið í pósthólfinu og hafa þegar yfir 6 milljón skjöl verið send það sem af er þessu ári.

Fjöldi sendra skjala í gegnum miðlægt pósthólf á Ísland.is

 

Landsarkitektúr um upplýsingaöryggi

Unnið hefur verið að því að útbúa leiðbeinandi tilmæli um upplýsingaöryggi þar sem fjallað er um hvernig stofnanir ríkisins og sveitarfélög skuli tryggja að upplýsingatæknikerfi þeirra bjóði samhæfða og samræmda þjónustu þvert á skipulagsheildir. Í október 2020 var fyrsta afurð slíkrar vinnu, drög að „Landsarkitektúr um upplýsingaöryggi“, birt í samráðsgátt.
Þá má nefna að á Ísland.is er að byggjast upp opinn vörulisti yfir vefþjónustur en með þeim er hægt að nálgast gögn í vörslu opinberra aðila. Sjálfvirknivæðing skráningar upplýsinga er gríðarlega mikilvæg fyrir verkefnið en markmið þess er að greina, skrá, upplýsa um og auðvelda aðgang að gögnum hins opinbera.

Nýtt málaskrárkerfi í vinnslu

Málaskrárkerfi ríkisstofnana eru fjölbreytt og fremur lítil samræming á milli þeirra. Nauðsynlegt er að samræma innkaup, verklag og flokkun gagna og skil til Þjóðskjalasafns. Umbra - þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, er með nýtt málaskrárkerfi fyrir Stjórnarráðið í innkaupaferli, og getur niðurstaðan orðið vísir að frekara leiðarstefi í þessum málaflokki.

Netöryggi ein grunnstoða stafrænnar opinberrar þjónustu

Netöryggi er ein af grunnstoðum stafrænnar opinberrar þjónustu. Tryggja þarf að almenningur og fyrirtæki geti átt í öruggum samskiptum við opinbera aðila og geti treyst því að upplýsingar sem stofnanir hafa yfir að ráða séu vel varðveittar og meðferð þeirra sé með ábyrgum hætti.

Í byrjun september 2020 tóku gildi lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða sem gera kröfur til þeirra aðila sem reka tækniumhverfi fyrir mikilvæga innviði samfélagsins. Í desember 2020 tók jafnframt gildi reglugerð um öryggi net- og upplýsingakerfa veitenda stafrænnar þjónustu. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að því að tryggja samfellda virkni og áfallaþol veitenda stafrænnar þjónustu, sem starfrækja skýjavinnsluþjónustu, netmarkað eða leitarvél á netinu, með því að kveða nánar á um lágmarkskröfur til umgjarðar og rekstrar net- og upplýsingakerfa þeirra.

Ráðuneytið vinnur nú að stefnu um notkun skýjaþjónusta sem hefur farið í samráð og verður gefin út á næstu vikum. Tilgangur skýjastefnu hins opinbera er að ná samræmdum markmiðum í notkun skýjalausna og útfærslu þeirra.

Þá hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lagt fram drög að stefnu um netöryggismál í samráðsgátt sem verður mikilvægur hlekkur inn í öryggi opinberrar þjónustu.

Allar stofnanir geta nýtt Strauminn

Straumurinn (X-Road) er undirstaða miðlægrar þjónustugáttar fyrir borgara landsins og sér til þess að þeir geti sótt alla þjónustu hins opinbera á einum stað í miðlægri þjónustugátt. Straumurinn er gagnaflutningslag fyrir upplýsingakerfi og vistkerfi sem er í senn tæknilegt umhverfi og skipulag sem tryggir örugg samskipti milli upplýsingakerfa. Straumnum er ætlað að auðvelda samskipti milli upplýsingakerfa á landsvísu með öruggum hætti. Allar opinberar stofnanir og sveitarfélög í landinu geta nýtt sér Strauminn til að flytja gögn sín á milli með það að markmiði að bæta þjónustu við almenning í landinu

Ýmis önnur verkefni tengjast markmiðum stjórnvalda um bætta þjónustu. Verkefni sem snúa að því að tryggja gæði stafrænnar þjónustu hins opinbera eiga það sameiginlegt að stuðla að því að auðvelda einstaklingum samskipti við ríki og sveitarfélög. Hér að neðan er að finna verkefni og árangur síðastliðins árs til viðbótar við það sem nefnt er hér að ofan:

 • Stafræn ökuskírteini voru rúmlega 92 þúsund í árslok 2020.
 • Rafrænt sakavottorð sparar nú þegar 5-800 heimsóknir einstaklinga til sýslumanna til að fá útprentaðan pappír en hlutfall rafrænna sakavottorða varð fljótt um 70%.
 • Stafræn búsforræðisvottorð spara um 200-250 ferðir til sýslumanna á mánuði og urðu strax nánast alfarið stafræn.
 • Um 12 þúsund einstaklingar nýttu sér afsláttarkjör Loftbrúar á Ísland.is á árinu 2020.
 • Frá og með maímánuði 2020 tekur ríkið aðeins á móti rafrænum reikningum.
 • Vinnuvélaskírteini og ADR-skírteini urðu stafræn á Ísland.is en yfir 35 þúsund manns eru með gild vinnuvélaréttindi hér á landi.
 • Opnað var fyrir umsókn úr Starfsmenntasjóði.
 • Yfirlýsing vegna stofnunar hjúskapar erlendis varð stafræn.
 • Ríkislögreglustjóri tengdi fyrstu gagnagáttina við Strauminn (X-Road).
 • Umsókn um P-kort fyrir hreyfihamlaða varð rafræn.
 • Fjöldi sendra skjala í gegnum miðlægt pósthólf á Ísland.is var um 8 milljónir árið 2020 og stefnir í að verða um 12 milljónir á árinu 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira