Hoppa yfir valmynd
3. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Skráning forsjár barna einstæðra foreldra í Noregi

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og sendiráð Íslands í Ósló vekja athygli á að norskum reglum um skráningu forsjár barna einstæðra íslenskra foreldra hefur verið breytt á þann veg að forsjárvottorð útgefin af Þjóðskrá Íslands eru nú tekin gild sem staðfesting á forsjá í Noregi.

Undanfarin misseri hefur sendiráð Íslands í Ósló fengið upplýsingar frá fjölmörgum íslenskum foreldrum í Noregi sem fara einir með forsjá barna sinna að þeir eru ekki skráð með forsjána í norsku þjóðskránni (folkeregisteret/ Skatteetaten) þrátt fyrir að hafa skilað inn forsjárvottorði frá Íslandi við flutninga til Noregs. Börnin sem um ræðir eru skráð með óþekkta forsjá (foreldreansvar ukjent). Þetta hefur haft alvarlegar afleiðingar m.a. hafa umræddir foreldrar ekki getað nálgast nauðsynleg gögn um börn sín í opinberum gögnum svo sem niðurstöður COVID-skimana hjá HelseNorge.

Sendiráðið vakti athygli á alvarleika málsins fyrir stjórnvöldum á Íslandi og í framhaldi sendi Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu-  og sveitastjórnarráðherra, sem einnig er samstarfsráðherra Norðurlanda bréf til samstarfsráðherra Norðurlanda í Noregi, Jan Tore Sanner, þar sem óskað var eftir að norskar reglur sem ekki tóku gild íslensk forsjárvottorð yrðu endurskoðaðar. Fór þá af stað umfangsmikil vinna og samráð milli landanna sem hefur nú borið árangur. Breytingin sem hefur nú verið gerð er tímabundin lausn en nú þegar er farin af stað vinna við að leysa málin til frambúðar.

Í Noregi hafa fjögur ráðuneyti unnið að lausn málsins: fjármálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, barna- og fjölskyldumálaráðuneyti og utanríkisráðuneytið ásamt Skatteetaten sem Þjóðskrá Noregs heyrir undir. Af Íslands hálfu hefur aðallega samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið unnið að lausn málsins en einnig utanríkisráðuneyti og dómsmálaráðuneyti. Þá hefur sendiráð Íslands í Ósló, Þjóðskrá Íslands og fulltrúi Íslands í stjórnsýsluhindranaráði Norrænu ráðherranefndarinnar unnið ötullega að lausn málsins.

Leiðbeiningar til að fá leiðréttingu á skráningu á forsjá barns:

  • Foreldri þarft að sækja um nýtt forsjárvottorð frá Þjóðskrá Íslands (ÞÍ). Vottorðið skal vera á ensku og stimplað og undirritað af starfsmanni Þjóðskrá (þ.e. ekki nóg að vottorðið sé staðfest rafrænt/electronic stamp).
  • Panta íslenska forsjárvottorðið.
  • Einstaklingar sem ekki eru með íslykil eða rafræn skilríki geta haft samband við þjónustuver ÞÍ í síma (+354) 515 5300 og pantað og greitt fyrir vottorð í gegnum síma.
  • Þar sem um er að ræða fjölskyldur sem þegar eru fluttar úr landi mun eftirfarandi texti vera á vottorðinu“ … (nafn barnsins) … has been domiciled abroad since ….(dags)… and consequently it is not possible to confirm custody of the child after that date“. Folkeregisteret samþykkir forsjárvottorð með þeim texta.
  • Þegar foreldri hefur móttekið forsjárvottorðið frá ÞÍ sendir hann það til Skatteetaten, Postboks 9200 – Grønland, 0134 OSLO með beiðni um að forsjáskráningu barnsins/barnanna verði breytt / Endre foreldreansvar.
  • Venjulegur afgreiðslutími er 3-4 dagar og er hægt að kanna stöðuna á „mine sider“ hjá Skattetaten.no

 

Sendiráð Íslands í Ósló mun veita frekari aðstoð eða leiðbeiningar ef þörf er á. Ef upp koma vandamál í ferlinu óskar sendiráðið eftir upplýsingum þar um á póstfangið [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira