Hoppa yfir valmynd
3. september 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs kynntar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Rakel Garðarsdóttir dómnefndarfulltrúi. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í Norræna húsinu í dag hverjir hljóta tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2021.

Meðal þeirra verkefna sem hljóta tilnefningu að þessu sinni eru gagnagrunnur sem sýnir kolefnisspor matvæla, sjálfbær landbúnaður sem bindur kolefni í jörðu og gróðurhús á Grænlandi sem sér veitingastöðum og íbúum fyrir ferskum matvörum. Þema verðlaunanna í ár er Sjálfbær matvælakerfi – sjálfbært úr hafi og jörð á borð og aftur til baka og endurspegla tilnefningarnar norrænar lausnir í vinnunni við að byggja upp sjálfbært matvælakerfi sem gagnast líffræðilegri fjölbreytni, umhverfi og loftslagi.

Lars Hindkjær, formaður dómnefndarinnar segir verkefnin átta sem tilnefnd eru sýna hvert á sinn hátt hvernig sjálfbærara matvælakerfi getur leitt af sér breytingar til bóta á umhverfi okkar og loftslagi.

Tilnefningu hljóta:

Danmörk

Gagnagrunnurinn Den store klimadatabase, frá grænu hugmyndasmiðjunni CONCITO í Danmörku, sem veitir samfélaginu og almenningi innsýn í kolefnisspor hinna ýmsu matvæla. 

Finnland

Samstarfsnetið Carbon Action, sem stendur fyrir rannsóknum til þess að auka sjálfbærni matvælaframleiðslu og landbúnaðar. 

Færeyjar

Matkovin, sem er stafrænn vettvangur sem styður staðbundna matvælaframleiðslu í Færeyjum.

Grænland

Greenlandic Greenhouse, sem er með sjálfbæra grænmetisræktun  í gróðurhúsi í Nuuk og veitir með því aðgengi að mat úr héraði.

Ísland

 Thor Ice Chilling Solutions, fyrir tæknilausn sem hraðar kælingu matvæla, dregur úr matarsóun og eykur geymsluþol.

Noregur

Félagasamtökin Framtiden i våre hender, fyrir þróun þekkingar sem byggð er á staðreyndum um áhrif sjálfbærni á framleiðslu og neyslu matvöru.

Svíþjóð

Svensk Kolinlagring fyrir umskipti til sjálfbærs landbúnaðar gegnum miðlun þekkingar, rannsóknir og hagnýta reynslu.

Álandseyjar

Mjólkurbúið Mattas Gårdsmejeri fyrir framleiðslu á lífrænum osti, jógúrt og fleiri mjólkurvörum.

Handhafi verðlaunanna verður kynntur 2. nóvember 2021 á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira