Hoppa yfir valmynd
4. september 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mat á árangri efnahagsaðgerða vegna heimsfaraldurs

Sterk þjóðarútgjöld og einkaneysla benda til þess að efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafi reynst árangursríkar. Vel hafi tekist til við að aðstoða einstaklinga og rekstraraðila í faraldrinum og glufur í aðstoð verið litlar. Þetta kemur fram í áliti Arnórs Sighvatssonar í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra til Alþingis um árangur og ávinning af aðgerðum stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Skýrslan var unnin að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Óskað var eftir því að lagt væri mat á árangur af opinberum aðgerðum í heild en einnig af einstaka þáttum. Jafnframt var óskað eftir að skýrslan yrði unnin með aðstoð óháðra sérfræðinga sem legðu sjálfstætt mat á árangur af einstökum mótvægisaðgerðum, á umfang þeirra og hvernig þær hafa unnið með hver annarri. Arnór Sighvatsson, hagfræðingur og fyrrum aðstoðarseðlabankastjóri, var ráðinn til þess verks.

Hagstæð skuldastaða ýtti undir góðan árangur

Í áliti Arnórs segir meðal annars að vegna hagstæðrar skuldastöðu hafi ríkissjóður verið vel í stakk búinn til að milda áfallið og létta byrðum af einstaklingum og fyrirtækjum. Almennt hófleg skuldastaða einkageirans hafi auðveldað aðlögunina og miklu máli skipt hve eiginfjár- og lausafjárstaða banka var sterk þegar farsóttin skall á. Geta þeirra til að fleyta einstaklingum og lífvænlegum fyrirtækjum yfir tímabundna erfiðleika hafi því verið því mikil.

Arnór segir að máli skipti hve opið íslenska hagkerfið er. Þá hafi það haft jákvæð áhrif að heimilin sem að jafnaði verja töluverðum hluta tekna sinna til ferðalaga erlendis vörðu töluverðum hluta þess fjársparnaðar sem myndaðist sökum færri utanlandsferða til kaupa á þjónustu innlendra geira sem orðið höfðu fyrir tekjusamdrætti.

Hagkvæmt samspil peningastefnu og ríkisfjármála hafi einnig átt ríkan þátt í því að auðvelda efnahagslífinu að halda dampinum og ríkissjóði að fjármagna stuðning við einstaklinga og atvinnulífið. Útbreiðsla nýrra afbrigða kórónuveirunnar hér á landi og á heimsvísu og uppgangur faraldursins í löndum sem enn hafa ekki náð langt í bólusetningu gegn veirunni valdi enn mikilli óvissu og því muni nokkur tími líða uns fyllilega verður ljóst hvernig til hefur tekist.

Hratt minnkandi atvinnuleysi og sterk innlend eftirspurn

Nú þegar efnahagsbatinn er hafinn virðast aðgerðir hafa skilað góðum árangri sem endurspeglast m.a. í hratt minnkandi atvinnuleysi og áhuga fyrirtækja á nýráðningum.

 

Þá hefur innlend eftirspurn haldist sterk í gegnum faraldurinn í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Þjóðarútgjöld í þjóðhagsreikningum, sem er samtala einkaneyslu, samneyslu og fjárfestinga, er góður mælikvarði á innlenda eftirspurn. Þau drógust saman um tæplega 2% árið 2020 en til samanburðar var samdráttur þjóðarútgjalda 19% árið 2009.

 

Á þriðja tug aðgerða metnar

Í skýrslunni er fjallað um á þriðja tug aðgerða auk þess sem lagt er mat á heildaráhrif ríkisfjármálanna á efnahagsumsvif.

Flestar mótvægisaðgerðir stjórnvalda höfðu áhrif á heimilin á einn eða annan hátt. Aðgerðum á borð við lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, sérstaka barnabótaauka, úttekt séreignarsparnaðar og lækkun tekjuskatts var ætlað að varðveita ráðstöfunartekjur heimila og draga úr samdrætti eftirspurnar. Þær leggjast á árar með kröftugu, sjálfvirku viðbragði atvinnuleysisbótakerfisins. Aðrar mótvægisaðgerðir höfðu það að markmiði að viðhalda ráðningarsamböndum og skapa störf, s.s. greiðsla launa í minnkuðu starfshlutfalli (hlutabótaleið), ráðningarstyrkir og átakið Hefjum störf. Þessu til viðbótar miðaði fjöldi mótvægisaðgerða að því að styðja við rekstraraðila (fyrirtæki og einyrkja) sem áttu í rekstrarerfiðleikum á tímum heimsfaraldurs og auðvelduðu þeim að viðhalda störfum sem er jafnframt ein mikilvægasta aðgerðin til að varðveita fjárhagslegan styrk heimilanna.

Rekstraraðilum sem orðið hafa fyrir neikvæðum áhrifum af faraldrinum hefur verið bættur hluti rekstrarkostnaðar með beinum styrkjum. Auk þess hafa þeim staðið til boða ríkistryggð lán og greiðsluskjól, að lækka tímabundið starfshlutfall starfsfólks sem þá fékk greiddar atvinnuleysisbætur í minnkuðu starfshlutfalli og síðar styrki til að ráða starfsfólk aftur í fyrra starfshlutfall. Einnig var boðið upp á frestun skatta og farið í aðgerðir til að örva eftirspurn.

 

Á sjötta þúsund nýttu úrræði stjórnvalda

Alls hafa um 5.200 rekstraraðilar af öllum stærðum nýtt úrræði stjórnvalda sem miðuðu að því að styðja við rekstraraðila vegna tekjufalls, s.s. frestun skattgreiðslna, greiðslu launa á uppsagnarfresti, lokunar-, tekjufalls- og viðspyrnustyrk, stuðnings- og viðbótarlán. Umfang stuðnings vegna aðgerðanna nemur um 70 ma.kr.

Nýting úrræðanna var hlutfallslega mikil meðal einyrkja. Þeir voru 55% af heildarfjölda rekstraraðila sem fengu slíka fyrirgreiðslu en til samanburðar voru einyrkjar 47% af launagreiðendum í viðskiptahagkerfinu fyrir faraldurinn. Flestir rekstraraðilar nýttu sér eitt úrræðanna, eða 62%, fimmtungur þeirra nýtti tvö úrræðanna og tíundi þeirra nýtti þrjú þeirra. Aðeins hafa 32 þeirra sem nýttu úrræði óskað eftir gjaldþrotaskiptum.

 

Ríkissjóður hefur til þessa verið í lykilhlutverki viðbragðs opinberra fjármála við faraldrinum en áhrif hans hafa verið mun meiri á fjárhag ríkissjóðs en á sveitarstjórnarstigið. Sjálfvirkt viðbragð skatt- og atvinnuleysisbótakerfa hefur leikið mikilvægt hlutverk við að milda efnahagsáfallið ásamt sértækum aðgerðum.

Áætlað er að áhrif COVID-19 ráðstafana á ríkissjóð árin 2020-2021 nemi 7,1% af vergri landsframleiðslu ársins 2020. Séu aðrar aðgerðir stjórnvalda sem ekki hafa bein áhrif á ríkissjóð taldar með, þ.e. ríkistryggð lán, frestun staðgreiðslu launa og útgreiðsla úr séreignarsjóðum, nemur umfangið nær 9,5% af VLF 2020. Þar að auki ábyrgðist ríkissjóður lán til Icelandair fyrir að hámarki 15 ma.kr. og 4,5 ma.kr. vegna Ferðaábyrgðasjóðs.

Fjárfestingarátak er ein stærsta aðgerðin sem stjórnvöld gripu til og er umfang átaksins um 45 milljarðar króna. Það spannar sex ára tímabil og undir átakið falla fjölbreyttar og mannaflsfrekar nýframkvæmdir en einnig m.a. fjárfestingar í stafrænum innviðum.

Hvað snertir tekjur ríkissjóðs er komist að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að rekja megi um 70 ma.kr. fall í tekjum ársins 2020 og um 80 ma.kr. fall í tekjum ársins 2021 til sjálfvirkrar sveiflujöfnunar.

Þá kemur fram í skýrslunni að samanburður við árið 2020 sýni að um 25 milljarða króna aukning í greiðslu atvinnuleysisbóta megi rekja til beinna áhrifa faraldursins sem er um 115% aukning frá fyrra ári. Samanburður við áætlun fjármálaáætlunar árið 2021 bendir til þess að viðbótin verði um 35 ma.kr. það árið enda gera áætlanir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist milli ára þótt það hafi minnkað undanfarna mánuði.

Fram kemur í skýrslunni að þegar faraldrinum sleppir og efnahagsbatinn hafi náð traustri fótfestu sé mikilvægt að styrkja stöðu ríkissjóðs að nýju og skapa þannig stefnurými til að bregðast við áföllum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum