Hoppa yfir valmynd
9. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Íslenskt atvinnulíf svari ákalli þróunarríkja

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru sameiginleg ábyrgð okkar allra og í þeim felast bæði áskoranir og tækifæri. Sú erfiðasta snýr að því útrýma fátækt og hungri. Í þessum efnum geta íslensk fyrirtæki lagst á árarnar með því að gera það sem þau kunna best og efla um leið samfélög og atvinnulíf í þróunarríkjum á forsendum heimamanna sjálfra.   

Í embætti mínu sem utanríkis- og þróunarmálaráðherra hef ég lagt sérstaka áherslu á að virkja krafta íslensks atvinnulífs til samstarfsverkefna í þróunarlöndum. Fyrirtækin okkar hafa sannarlega svarað þessu kalli. Á þeim tæpu þremur árum sem liðin eru frá stofnun Samstarfssjóðs við atvinnulífið um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna hafa hátt í tuttugu fyrirtæki fengið úthlutað úr honum. Ísland hefur margt fram að færa í þessum efnum. Þar kemur til þekking og reynsla á sviði jarðhita og sjávarútvegs en einnig í vaxandi mæli um nýsköpun og hugvit sem verður til í íslensku atvinnulífi.  

Fjölbreytt samstarfsverkefni eru þegar til staðar sem byggja á framúrskarandi hugviti og verkþekkingu íslenskra fyrirtækja á ólíkum sviðum. Sem dæmi um ólík verkefni sem hlotið hafa styrkja úr sjóðnum má nefna verkefni á vegum jarðhitafyrirtækisins GEG um nýtingu jarðvarma við kælingu matvæla á Indlandi og Creditinfo sem miðar að uppbyggingu viðskiptaumhverfis og sjálfbærra viðskipta í nokkrum þróunarríkjunum í Vestur-Afríku. 

Stjórnvöld í flestum þróunarlöndum eru þess vel meðvituð að erlend fjárfesting og einkaframtak eru lykilforsendur þess að þau nái árangri við uppbyggingu í sínu atvinnulífi. Á ferðum mínum til samstarfsríkja okkar hefur heimafólk ítrekað komið á framfæri við mig að skapa þurfi fleiri launuð störf, einkum fyrir ungt fólk Við leggjum sérstaka áherslu á að verkefni styðji við áttunda heimsmarkmiðið um mannsæmandi atvinnu og sjálfbæran hagvöxt. Án þátttöku atvinnulífsins verður því markmiði einfaldlega ekki náð. Aðgangur kvenna að launuðum störfum er einnig nauðsynlegur þáttur í að ná jafnrétti kynjanna.

Norðurlöndin hafa langa reynslu af árangursríku samstarfi hins opinbera við atvinnulífið í þróunarsamvinnu og eru reiðubúin að miðla af reynslu sinni svo Ísland geti fetað sama veg. Samstarfssjóðurinn er liður í viðleitni okkar til að skapa fleiri tækifæri til að nýta íslenska þekkingu og reynslu í þágu fátækari þjóða.

Nú í vikunni auglýsti sjóðurinn eftir umsóknum í sjötta sinn. Veitt verða framlög til samstarfsverkefna sem geta stuðlað að atvinnusköpun og sjálfbærum vexti í lágtekju- og lágmillitekjurríkjum. Verkefnin skulu hafa jákvæð umhverfisáhrif, styðja markvisst við jafnrétti kynjanna og við framkvæmd þeirra skal virða mannréttindi í hvívetna.

Góð samstarfsverkefni ættu að geta fengið stuðning ekki einungis úr Samstarfssjóðnum heldur einnig úr fjölþjóðlegum sjóðum sem koma að fjármögnun svo sem gegnum Norræna þróunarsjóðnum (NDF) og fleiri. 

Ég hvet því íslensk fyrirtæki til að afla sér upplýsinga hjá Heimstorgi Íslandsstofu, upplýsinga- og samskiptagátt fyrirtækja sem horfa til sóknar á nýjum og spennandi mörkuðum. Ávinningur allra af slíku samstarfi er ótvíræður. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. september 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira