Hoppa yfir valmynd
10. september 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Almenn eigandastefna fyrir félög í eigu ríkisins endurskoðuð

Mynd/Kristján Maack - mynd

Endurskoðuð almenn eigandastefna fyrir félög í eigu ríkisins hefur tekið gildi. Í kjarna stefnunnar felst að félögin séu rekin á faglegan og gagnsæjan hátt þannig að almennt traust ríki um stjórn og starfsemi þeirra.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með eignarhald félaga í eigu ríkisins nema lög mæli fyrir um annað. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að halda utan um félög ríkisins á miðlægan hátt og skilja sem mest á milli faglegrar umsýslu félaga af hálfu ríkisins og því lögbundna hlutverki þess að sjá um reglusetningu og eftirlit með starfsháttum einstakra atvinnugreina.

Ríkið á alfarið eða ráðandi eignarhluti í 40 fyrirtækjum með ólík rekstrarform og mismunandi starfsemi og markmið. Félögin eru þýðingarmikil í íslensku atvinnulífi og gegna sum þeirra mikilvægu kerfislegu hlutverki í samfélaginu auk þess að starfa á samkeppnismarkaði.

Endurskoðuð stefna leysir af hólmi eldri stefnu frá árinu 2012. Við endurskoðunina var lögð áhersla á að innleiða nýrri sjónarmið, svo sem um samfélagslega ábyrgð, þ.m.t. loftlagsmál og jafnrétti. Drög að endurskoðaðri stefnu voru lögð í samráðsgátt stjórnvalda og bárust sjö umsagnir um hana, sem hafðar voru til hliðsjónar í endurskoðunarferlinu.

Hin almenna eigandastefna ríkisins skiptist í fimm meginkafla ásamt viðaukum þar sem fjallað verður ítarlegar um einstök mál, einstaka geira og stærri félög, eftir því sem þörf krefur. Mun eigandastefnan ásamt viðaukum sæta reglulegri endurskoðun eftir því sem þörf verður á.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira