Hoppa yfir valmynd
10. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Mikilvægt að takmarka útbreiðslu sýklalyfjaónæmis

Á árinu 2019 undirrituðu Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Í kjölfarið skipuðu ráðherrarnir stýrihóp um varnir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum sem vinnur að framgangi aðgerðaáætlunar sem markar stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Auk þess settu ráðherrarnir á fót Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóð sem fjármagnar verkefni í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi, fjármögnuðu nýjar stöður sérfræðinga í sýklalyfjaónæmi í þremur stofnunum auk fleiri verkefna. Ríkisstjórnin lýsti því yfir á árinu 2019 að hún ætli að vera í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. 

Í samræmi við tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp árið 2019 sem var m.a. falið að móta aðgerðaáætlun ef greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur í dýrum, sláturafurðum og matvælum. Starfshópurinn hefur skilað lokaskýrslu og kynnt helstu niðurstöður fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. Starfshópinn skipuðu: 

  • Vigdís Tryggvadóttir, sérfræðingur Matvælastofnunar, formaður.

  • Karl G. Kristinsson, sérfræðingur Landspítala Háskólasjúkrahúss.

  • Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir, sérfræðingur Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

  • Kjartan Hreinsson, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í skýrslunni kemur fram að sýklalyfjaónæmar bakteríur geti borist eftir mörgum leiðum og því verði að bregðast við með heildstæðum hætti og koma í veg fyrir hringrás sýklalyfjaónæmra baktería á milli þátta í anda hugmyndafræði “Einnar heilsu” (e. One Health). Umræddir þættir eru menn, dýr, matvæli, fóður og umhverfi.

Í skýrslunni eru lögð til fjögur markmið til þess að ná því grunnmarkmiði að varðveita möguleika á árangursríkri meðferð á bakteríusýkingum hjá fólki og dýrum: 

  1. Auka þekkingu og skilning á sýklalyfjaónæmi og “Einni heilsu”.

  1. Stuðla að markvissari og skynsamlegri notkun sýklalyfja í dýrum og fólki.

  1. Greina stöðuna á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

  1. Takmarka útbreiðslu ónæmis með forvörnum, vöktun og íhlutandi aðgerðum.

Í skýrslunni eru einnig tillögur að viðbrögðum við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum auk draga að aðgerðum í tengslum við baráttuna um sýklalyfjaónæmi sem starfshópurinn leggur til að unnar verði áfram í samráði við sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra telja skýrsluna mikilvægan hlekk í tengslum við átak gegn sýklalyfjaónæmi. Í ráðuneytunum er unnið að því að móta tillögur um næstu skref á grundvelli skýrslunnar. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af mestu heilbrigðisógnum heimsins. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum veldur vandamálum við meðferð sýkinga og hefur þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna. Auk þess veldur aukið sýklalyfjaónæmi í dýrum því að erfiðara er að meðhöndla tiltekna dýrasjúkdóma.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
6. Hreint vatn og hreint
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum