Hoppa yfir valmynd
14. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Orkustofnun eykur áherslu á loftslagsmál, orkuskipti og nýsköpun

Þórdís Kolbrún, orkumálaráðherra og Halla Hrund, Orkumálastjóri - mynd

Í samræmi við áherslur úr Orkustefnu fyrir Ísland til 2050, og aðgerðaráætlun Orkustefnu, hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra staðfest nýtt skipurit fyrir Orkustofnun og áherslur stofnunarinnar.

Hið nýja skipurit, og áherslur, miða að því að stofnunin geti sem best sinnt hlutverki sínu í þágu almennings og stuðlað að sjálfbærri og ábyrgri orku- og auðlindanýtingu. Auk lögbundinna verkefna fela skipuritið og áherslurnar Orkustofnun leiðandi hlutverk á sviði orkuskipta og nýsköpunar í orkumálum, þar sem lögð er áhersla á mikilvægi Orkustofnunar við að takast á við áskoranir og tækifæri á sviði orku- og loftslagsmála.

Samkvæmt nýja skipuritinu eru þrjú fagsvið innan Orkustofnunar. Í fyrsta lagi eftirlit, í öðru lagi leyfisveitingar og í þriðja lagi loftlagsbreytingar, orkuskipti og nýsköpun. Áherslur úr Orkustefnu á sviði orkuskipta, loftslagsmála og nýsköpunar eru í forgrunni í nýju skipuriti þar sem sérstakt svið heldur utan um þann málaflokk. Á því sviði verða einnig starfsemi Orkuseturs og Orkusjóðs þar sem gert er ráð fyrir vaxandi hlutverki slíkrar starfsemi í þágu orkuskipta og nýsköpunar í orkumálum. Með aðskilnaði lögbundins eftirlits og stjórnsýslu leyfisveitinga í tvö svið er gegnsæi og aðhald aukið í stjórnsýslu Orkustofnunar. Þá er sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar dregið fram með skýrum hætti. Einnig er lögð áhersla á alþjóðlegt samstarf, samskipti út á við og greiningu og gagnavinnslu, þvert á stofnunina, enda mörg tækifæri sem felast í því.

 

„Orkuskipti eru stærsta framlag Íslands til loftlagsmála,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. „Við höfum alla burði til að vera í fararbroddi í orkuskiptum, nýta okkar eigin hreinu orku og byggja um leið upp öfluga hugvitsdrifna atvinnugrein. Orkustofnun gegnir lykilhlutverki í þessari vegferð.“

 

„Orkustofnun starfar fyrst og fremst í þágu almennings í landinu því orkumál varða alla þætti samfélagsins,“ segir Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri. „Stofnunin býr að öflugu fagfólki og gegnir veigamiklu hlutverki við samþættingu orkumála, loftslagsmála og innleiðingu grænna lausna. Orkustofnun er einnig vettvangur nýsköpunar, stuðlar að upplýstri umræðu um orku- og auðlindamál og leggur áherslu á að veita stjórnvöldum faglega ráðgjöf í þágu almannaheilla.“

 

Sjá má nýtt skipurit stofnunarinnar og helstu stefnuáherslur hér að neðan.

 

STEFNA ORKUSTOFNUNAR

Orkustofnun starfar í þágu samfélagsins og í takt við orkustefnu Íslands.

Orkustofnun leggur áherslu á að byggja upp þekkingu á fagsviðum stofnunarinnar svo sem á sviðum orkuvinnslu, orkunýtingar og loftslagsmála, stunda skilvirka og gagnsæja stjórnsýslu, sem og sjálfstætt og vandað eftirlit.  Þannig getur stofnunin skapað málaflokknum skýra umgjörð, stuðlað að nýsköpun, upplýstri umræðu, og veitt stjórnvöldum faglega ráðgjöf í þágu almannaheilla.

Orkustofnun er framsýn, traust og skilvirk stofnun sem leggur áherslu á fagmennsku, frumkvæði og samvinnu í störfum sínum.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur
7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum