Hoppa yfir valmynd
15. september 2021 Félagsmálaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla stýrihóps um málefni fanga afhent ráðherrum

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra , Agnar Bragason, fíkniráðgjafi á meðferðarheimilinu Krýsuvík, Þorlákur „Tolli“ Morthens, myndlistarmaður og formaður stýrihóps um málefni fanga, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra við kynningu skýrslunnar.  - mynd

Þorlákur „Tolli“ Morthens, myndlistarmaður og formaður stýrihóps um málefni fanga, afhenti Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, nýja skýrslu stýrihópsins í dag. Hlutverk hópsins var að móta heildstæða meðferðar- og endurhæfingarstefnu í fangelsismálakerfinu, leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og greina fjárþörf til þess að tryggja öllum föngum einstaklingsbundna meðferðaráætlun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni.

Í skýrslu stýrihópsins eru lagðar til viðamiklar breytingar í málaflokknum:

  1. Húsnæðismál: Endurbætur og langtímastefnumótun í húsnæðismálum fangelsanna er grundvallarforsenda þess að hægt sé að innleiða batamiðaða nálgun í málefnum fanga. Leggur stýrihópurinn til umbætur á húsnæði Litla-Hrauns, Hólmsheiði og Sogns.
  2. Heildstæð meðferðarstefna: Aukið aðgengi fanga að skimun fyrir geðrænum erfiðleikum þegar dómur fellur, stöðugildum sérfræðinga á meðferðarsviði Fangelsismálastofnunar verði fjölgað um 10 og stöðugildum í geðheilsuteymi fanga verði fjölgað um eitt auk þess sem boðið verður upp á eftirfylgd geðheilsuteymis í allt að 12 mánuði eftir að afplánun lýkur fyrir einstaklinga í brýnni þörf.
  3. Menntun og virkni: Stóraukin námsráðgjöf og sérkennsluúrræði, aukin fullorðinsfræðsla og styttri námskeið í verkmenntun.
  4. Atvinna, hæfing og félagslegur stuðningur að lokinni afplánun: Úrræði efld fyrir einstaklinga sem lokið hafa afplánun til að styðja við farsæla endurkomu á vinnumarkaði.
  5. Framfærsla og virknigreiðslur: Þóknun fyrir vinnu eða nám verði hækkuð og við upphaf afplánunar fá fangar almenna ráðgjöf um fjármálog fjármálalæsi.
  6. Aukinn félagslegur stuðningur að lokinni afplánun: Mikilvægt er að huga að húsnæðismálum og búsetu fanga áður en afplánun lýkur, til að tryggja farsæla endurkomu út í samfélagið á ný.

Þá leggur stýrihópurinn áherslu á að föngum í bataleið þurfi að standa til boða fjölbreyttari og einstaklingsmiðaðri úrræði en nú gefst kostur á við hefðbundna afplánun.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Ávinningur samfélagsins af því að stuðla að betrun fanga er mikill og augljós. Við þurfum að bæta félagslegar aðstæður einstaklinga sem afplána dóm eða hafa lokið afplánun refsingar í fangelsi og eru að fóta sig í samfélaginu á ný. Tillögur stýrihópsins eru gott veganesti í þá vinnu sem framundan er, og ég vil þakka hópnum fyrir vandaða og góða vinnu.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Þessi skýrsla er mikilvæg varða á leið okkar að manneskjulegri og nútímalegri refsivörslu. Þegar einstaklingur eru sviptur frelsi sínu er um að ræða afar íþyngjandi aðgerð sem fylgir ábyrgð. Stjórnvöld þurfa, hér eftir sem hingað til, að gangast við því og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að raunveruleg betrun eigi sér stað í fangelsum landsins. Með aðstoð fagmanna fáum við betra fólk út úr fangelsunum en gekk þangað inn.“

Skýrslu stýrihóps um málefni fanga má finna hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira