Hoppa yfir valmynd
17. september 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Aukið aðgengi að hraðprófum með kostnaðarþátttöku ríkisins

Ráðherra hefur ákveðið með reglugerð að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við töku hraðprófa hjá einkaaðilum, frá og með 20. september. Markmiðið er að auka aðgengi almennings að hraðprófum þar sem fleiri aðilum verður kleift að bjóða þessa þjónustu, notendum að kostnaðarlausu, óháð tilgangi prófanna.

Hingað til hafa hraðpróf fyrst og fremst verið notuð annars vegar þegar einstaklingum er gert að viðhafa smitgát í stað sóttkvíar og vegna sýnatöku við komu til landsins. Heilsugæslustöðvar hafa annast slíkar sýnatökur án endurgjalds. Hins vegar hafa hraðpróf staðið til boða gegn gjaldi þeim sem á þurfa að halda vegna ferða frá landinu.

Stóraukin eftirspurn eftir hraðprófum

Þann 15. september síðastliðinn tók gildi reglugerðarákvæði sem heimilar að halda allt að 1.500 manna viðburði að því gefnu að allir gestir fæddir 2005 eða fyrr sýni neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi sem er innan við 48 klukkustunda gamalt. Enn fremur er nú heimilt að halda skólaskemmtanir í grunn- og framhaldsskólum, án nálægðartakmörkunar og grímuskyldu, ef gestir framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi. Til að innleiðing hraðprófa skili tilgangi sínum um að auka möguleika fólks til að sækja margvíslega viðburði og stunda menningarlíf er mikilvægt að greitt aðgengi sé að hraðprófum og að kostnaður vegna þeirra sé ekki íþyngjandi. Þess vegna hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að bæði opinberir aðilar og einkaaðilar geti boðið prófin án endurgjalds, að uppfylltum faglegum skilyrðum um framkvæmdina og ákvæðum reglugerða þar að lútandi.

Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra munu Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir hverja sýnatöku samkvæmt gjaldskrá sem stofnunin setur. Vottorð um neikvætt próf verða gefin út með QR-kóða frá embætti landlæknis en þeir sem greinast jákvæðir munu frá strikamerki frá embættinu með boði um PCR-sýnatöku til að staðfesta smit. Aðeins má nota viðurkennd hraðpróf sem uppfylla skilyrði reglugerðar heilbrigðisráðherra nr. 415/2004 og skylt er að heilbrigðisstarfsmaður eða starfsmaður sem fengið hefur sérstaka þjálfun frá heilbrigðisstarfsmanni, annist framkvæmd prófsins. Nánar er fjallað um skilyrði fyrir endurgreiðslu í 3. gr. meðfylgjandi reglugerðar. Reglugerðin gildir til 31. desember næstkomandi.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur sinnt sýnatökum með hraðprófum við Suðurlandsbraut í Reykjavík en auk þess bjóða heilbrigðisstofnanir upp á sýnatöku um allt land. Með ákvörðun ráðherra fjölgar sýnatökustöðum en einkaaðilar annast nú þegar sýnatöku með hraðprófum á eftirtöldum stöðum:

  • BSÍ í Reykjavík
  • Kringlan í Reykjavík
  • Kleppsmýrarvegi í Reykjavík
  • Aðalgögu 60 í Reykjanesbæ
  • Við Háskólann á Akureyri

Reglugerðin

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum