Hoppa yfir valmynd
21. september 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðaáætlun um sjúkraflutninga og bráðaþjónustu til ársins 2025

  - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur samþykkt aðgerðaáætlun til fimm ára um sjúkraflutninga og bráðaþjónustu sem hefur að markmiði að efla og styrkja þessa þjónustu á landsvísu og auka gæði hennar. Áætlunin miðar að því að skapa betri yfirsýn yfir framkvæmd þjónustunnar, skilgreina þjónustuviðmið, setja viðmið um viðbragðs- og flutningstíma og  tryggja að sjúkraflutningafólk eigi ávallt greiðan aðgang að faglegum stuðningi þegar á þarf að halda. Einnig er fjallað um aðgerðir sem miða að því að efla nám sjúkraflutningafólks og bráðatækna, svo fátt eitt sé nefnt. 

Aðgerðaáætlunin er að meginefni byggð á skýrslu starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að móta tillögur að framtíðarskipulagi sjúkraflutninga í samræmi við heilbrigðisstefnu og skilaði tillögum sínum á liðnu ári. Leitað var til fagráðs sjúkraflutninga um forgangsröðun áherslumála í meðfylgjandi aðgerðaáætlun sem jafnframt var birt til umsagnar í samráðsgátt. Alls bárust 14 umsagnir frá einstaklingum og stofnunum og voru þær teknar til umfjöllunar við lokagerð áætlunarinnar. 

Fyrsta viðbragð getur skipt sköpum

„Fyrsta viðbragð í kjölfar slysa eða bráðra veikinda getur skipt sköpum um hvernig sjúklingum reiðir af í kjölfarið. Það er því til mikils að vinna að tryggja sem allra best faglegan grundvöll þessarar mikilvægu þjónustu og skapa þeim sem henni sinna gott og öruggt starfsumhverfi. Menntun, þjálfun og símenntun starfsfólksins er meðal lykilatriða góðrar þjónustu, en einnig faglegt bakland, réttur búnaður og hagnýting heilbrigðistæknilausna á þessu sviði. Um allt þetta er fjallað í aðgerðaáætluninni sem ég bind miklar vonir við að muni leiða okkur áfram að enn betri og styrkari þjónustu á þessu sviði fyrir landsmenn alla, hvar á landinu sem þeir búa eða eru staddir þegar á þarf að halda“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira