Hoppa yfir valmynd
21. september 2021 Félagsmálaráðuneytið

Skrifað undir samning um Jafningjasetur Reykjadals

Frá undirritun samningsins í Reykjadal - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifaði í gær undir samning við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra um Jafningjasetur Reykjadals. Markmiðið með Jafningjasetri Reykjadals er að efla og styrkja fötluð ungmenni með því að auka möguleika þeirra á félagslegum tengslum og bjóða þeim upp á valkosti í tómstunda-, frístunda- og menningarstarfi.

Jafningjasetrið, sem er félagsmiðstöð fyrir fötluð ungmenni, er hugarfóstur Margrétar Völu Marteinsdóttur, forstöðukonu Reykjadals, en mikil eftirspurn er eftir þjónustu sem þessari. Stefnt er á að starfsemin hefjist 1. október næstkomandi. Skrifað var undir samstarfssamninginn í Reykjadal en þar fór fram athöfn þar sem ráðherra þakkaði starfsfólki Reykjadals fyrir frábært starf í sumar. Reykjadalur hlaut stuðning frá félagsmálaráðuneytinu vegna sumarstarfs og gat boðið upp á fjóra nýja valkosti fyrir fötluð ungmenni um land allt. Alls var tekið á móti hátt í 500 einstaklingum og tókst að stytta biðlistann í Reykjadal þannig að allir sem höfðu verið á biðlista árið 2020 fengu pláss. Hefð hefur myndast fyrir því í Reykjadal að henda góðum gestum í sundlaug staðarins í öllum fötunum og henti starfsfólk Reykjadals ráðherra í sundlaugina sem þakklætisvott fyrir stuðningin í sumar.

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Reykjadals: „Með þessari þjónustu er hægt að auka tækifæri á frístunda- og tómstundastarfi fyrir fötluð börn og ungmenni og í leiðinni rjúfa félagslega einangrun og stofna til vináttusambanda á jafningjagrundvelli sem gætu varað ævilangt. Það verður félagsmiðstöðvarbragur á þessu. Lögð verður áhersla á þjónandi leiðsögn í starfinu og fær starfsfólk fræðslu og þjálfun í að vinna með fötluðum börnum og ungmennum með ólíkar stuðningsþarfir.“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Starfsfólk Reykjardals hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf á erfiðum tímum en Covid-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á starfsemina. Jafningasetrið er frábær hugmynd sem Margrét Vala forstöðukona Reykjadals fékk og ég er viss um að það verði stór og mikilvægur póstur í félagslífi fatlaðra ungmenna.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira