Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mundu að hnerra í regnbogann: Bók um skólastarf og COVID-19

Heimsfaraldur COVID-19 hefur haft fjölþætt áhrif á skóla- og frístundastarf hér á landi. Í bókinni Mundu að hnerra í regnbogann, sem nú er komin út, er að finna persónulegar frásagnir skólafólks; kennara, nemenda, stjórnenda og annars starfsfólks skóla á öllum skólastigum, af viðburðaríkum en krefjandi tíma vegna COVID-19. Meginmarkmið verkefnisins var að safna saman þessum forvitnilegu frásögnum til að draga megi lærdóm af reynslu fólks og nýta til framtíðar, íslensku menntakerfi til gagns og heilla.

„Skólafólk á Íslandi hefur sannarlega unnið þrekvirki við að halda uppi námi og kennslu við mjög sérstakar aðstæður á undanförnum misserum – það sést vel í frásögnum þessarar merkilegu bókar. Hana er bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa og mig langar að þakka þeim fjölmörgu sem ýmist sendu inn sögur sínar eða tóku þátt í gerð hennar með öðrum hætti. Bókin ber vitni um seiglu og úrræðagæði sem fyllir mig bæði bjartsýni og stolti yfir skólastarfi hér á landi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Frásagnirnar lýsa reynslu fólks á öllum aldri af skólastarfi í hringiðu heimsfaraldurs, en höfundar greina hér frá upplifun sinni, áskorunum, tilfinningum og skoðunum. Í bókinni er einnig fjallað stuttlega um ýmsar rannsóknir íslenskra fræðimanna um áhrif COVID-19 á skóla- og frístundastarf sem farnar eru af stað.

Ritstjóri bókarinnar er Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur bókina út og mun á næstunni senda öllum fræðsluskrifstofum, leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, tónlistarskólum, framhaldsfræðsluaðilum, frístundaheimilum og háskólum eintök af bókinni

  • Mundu að hnerra í regnbogann: Bók um skólastarf og COVID-19 - mynd úr myndasafni númer 1
  • Mundu að hnerra í regnbogann: Bók um skólastarf og COVID-19 - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum