Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs stækkar

Horft inn Krossárgil. - myndAnna Þorsteinsdóttir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði í dag breytingar á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð sem kveður á um stækkun á norðursvæði þjóðgarðsins.

Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans, rúm 14% af flatarmáli landsins. Náttúra og menningarsaga Vatnajökulsþjóðgarðs er einstök og var þjóðgarðurinn samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019.

Með viðbótinni nú verður Vatnajökulsþjóðgarður 14.967 km2. Stækkunin er öll á þjóðlendu innan Þingeyjarsveitar, en svæðið sem bætist við þjóðgarðinn er 299 km2 af óbyggðum víðernum á Bárðdælaafrétt austari. Svæðið sem bætist við þjóðgarðinn nær frá sveitarfélagamörkum Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps og langleiðina að Skjálfandafljóti. Vestari mörk hins stækkaða svæðis ná að mögulegu framkvæmdasvæði virkjunarkosta sem eru til meðferðar í verndar- og orkunýtingaráætlun. Hefðbundin landnýting er leyfð á svæðinu og er það í samræmi við reglugerð og vilja sveitarfélagsins.

Undirbúningur stækkunar hefur verið í nánu samstarfi við Þingeyjarsveit og í samráði við stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Nú tekur við vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið. Í því ferli er byggt á tillögum svæðisráðs og nánu samráði við hagsmunaaðila.

Víðernum fer sífellt fækkandi í heiminum og jöklar bráðna hratt vegna loftslagsbreytinga. Það sem eftir er af slíkum landsvæðum og náttúrufyrirbærum verður sífellt verðmætara og því mikilvægt að vernda til framtíðar fágæt náttúrufyrirbæri, landslag og víðerni.

Þá telst svæðið alþjóðlega mikilvægt fyrir heiðagæs en hátt í 10% af íslenska heiðagæsastofninum verpir á svæðinu í grónum dölum, einkum nyrst á svæðinu. 

„Það eru gríðarlega mikil verðmæti í óbyggðum víðernum á hálendi Íslands. 43% af ósnortnum víðernum Evrópu er að finna á Íslandi og því er ábyrgð okkar mikil að rýra þau ekki frekar. Með þessari stækkun njóta nú stærri hluti víðerna landsins verndar til framtíðar og þökk sé framsýni sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að þá bætast nú um 300 km2 af óbyggðum víðernum við þjóðgarðinn. Á sama tíma eflum við landsbyggðina með fjölgun starfa vegna aukinna verkefna þjóðgarðsins á svæðinu,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.

  • Norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs stækkar - mynd úr myndasafni númer 1
  • Norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs stækkar - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum