Hoppa yfir valmynd
23. september 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Þroska- og hegðunarstöðinni veitt aukið fé til að stytta bið barna eftir greiningu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 75 milljónum króna í tímabundið átaksverkefni til að stytta biðlista og þar með bið þeirra barna sem bíða eftir greiningum hjá Þroska- og hegðunarstöðinni. Biðtíminn hefur lengst síðustu misserin og tilvísunum fjölgað. Árlega fara um 360 börn í gegnum greiningarferli hjá stofnuninni en tilvísanirnar eru 600-700 á ári. Algengustu ástæður tilvísana eru ADHD, einhverfa, kvíði, vanlíðan og hegðunar- og samskiptavandi.

Þroska- og hegðunarstöðin heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en sinnir 2. stigs þjónustu á landsvísu fyrir börn í grunn- og framhaldsskólum að 18 ára aldri sem felst í greiningu, ráðgjöf, meðferð og fræðslu vegna taugaþroskaraskana og annarra erfiðleika sem tengjast hegðun og líðan.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er með til skoðunar hvernig stytta megi biðlista eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvarinnar og greiða boðleiðir innan þjónustukerfisins til að tryggja sem besta og skjótasta þjónustu. „Langur biðtími eykur vanda barnanna og seinkar því að þau fái þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Markmiðið með auknu fjármagni er að koma þessu málum í betra horf og vinna á uppsöfnuðum vanda“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. 

115 milljónir í aukna geðheilbrigðisþjónustu LSH og SAk. fyrir börn og ungt fólk

Nýverið kynnti ráðherra ákvörðun um ráðstöfun rúmlega 100 milljóna króna í tiltekin þverfagleg átaksverkefni á vegum Landspítala til að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungt fólk. Meðal þeirra verkefna eru gagnreynd námskeið í félagsfærni hjá BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítala), fjölgun greiningarviðtala hjá BUGL fyrir börn með mögulega röskun á einhverfurófi samfara öðrum geðrænum vanda til að stytta bið eftir greiningu, auk markvissra aðgerða til að stytta bið eftir þjónustu þunglyndis- og kvíðateymis geðþjónustu Landspítala, þjónustu átröskunarteymisins og þjónustu áfallateymisins. Einnig ákvað ráðherra að ráðstafa 13 milljónum króna til að efla tímabundið þjónustu barna- og unglingageðteymis Sjúkrahússins á Akureyri til að stytta þar bið eftir greiningu og meðferð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira