Hoppa yfir valmynd
24. september 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði Matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á Matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór bæði rafrænt og í New York í gær. Ráðstefnan er haldin í tengslum við ráðherraviku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í þessari viku. 

Forsætisráðherra lagði áherslu á að draga yrði úr sóun þegar kemur að framleiðslu, dreifingu og neyslu matvæla í heiminum. Þörf væri á nýju gildismati í þágu náttúru og umhverfis í samhengi við réttláta matvælastefnu. Þá ræddi hún hve mikilvæg heilbrigð höf séu til að afla góðrar næringar.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, bauð til ráðstefnunnar og er tilgangurinn að hvetja ríki heims til átaks í þágu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun sem ætlunin er að ná 2030. Enn er langt í land með flest markmiðin og mörg tengjast matvælakerfum heimsins.

Á ráðstefnunni kom fram að öflun matvæla í þágu mannkyns, framleiðsla, dreifing og neysla valdi gríðarlegum áhrifum á loftslag og lífríki jarðarinnar til hins verra. Með örri fólksfjölgun á næstu áratugum sé einsýnt að óbreyttar aðferðir munu ekki aðeins valda miklum umhverfisspjöllum heldur beinlínis grafa undan afkomumöguleikum milljarða manna í framtíðinni.

Með því að ræða matvælakerfin í heild, en ekki bara matvælaframleiðslu, sé ætlunin að bregða ljósi á heildarmyndina og mikilvægi umhverfis í sambandi við líf, heilsu og næringu mannkyns í framtíðinni.

Á ráðstefnunni var ríkjabandalögum um tilteknar umbætur hleypt af stokkunum. Ísland hefur tekið virkan þátt í undirbúningi tveggja þeirra; bandalags um skólamáltíðir fyrir öll börn og bandalags um fæðu úr vötnum og höfum.

Ávarp forsætisráðherra á Matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 2 Ekkert hungur
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið Sþ: 13 Verndun jarðarinnar
Heimsmarkmið Sþ: 14 Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum