Hoppa yfir valmynd
24. september 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sjálfbær fjármögnunarrammi ríkissjóðs

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út fjármögnunarramma fyrir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs og hlotið „dökkgræna“ einkunn (e. Dark Green) hjá CICERO Shades of Green, alþjóðlega viðurkenndum og sjálfstæðum vottunaraðila. Einkunnin gefur til kynna að þau verkefni sem skal fjármagna, stuðli að langtímasýn í átt að lág-kolefna framtíð og aðlögun að loftslagsbreytingum. Einkunnin nær ekki yfir félagsleg verkefni en umsögn um þau verkefni var jákvæð. Ramminn gerir ríkissjóði kleift að fjármagna sig m.a. með útgáfu sjálfbærra, grænna, blárra og/eða félagslegra skuldabréfa, innanlands og erlendis.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Það er ánægjulegt að sjá þennan áfanga verða að veruleika. Við höfum lengi fylgst með möguleikum til útgáfu á sjálfbærum skuldabréfum og áhugi fjárfesta hefur farið vaxandi ár frá ári. Það sem miklu skiptir er að kjörin á slíkum útgáfum eru að verða hagstæðari með hverju árinu og góðar líkur á því að sjálfbær fjármögnun verði ekki eingöngu gæðastimpill fyrir stefnu okkar í opinberum fjármálum heldur leið fyrir okkur til að njóta góðra kjara fyrir góðan árangur, m.a. í loftslagsmálum. Þessi tímamót eru fangnaðarefni og marka kaflaskil.“

Fjármögnun, sem styður við markmið um sjálfbærni, hefur vaxið hratt undanfarinn áratug um heim allan. Vatnaskil hafa orðið í meðvitund almennings og fjárfesta um loftslags- og umhverfismál og félagslegar áskoranir. Hefur sú þróun endurspeglast í hratt vaxandi áhuga á sjálfbærri fjármögnun og fjárfestingum. Með útgáfu undir þessum fjármögnunarramma er verið að fjármagna skilgreind útgjöld ríkissjóðs og má skipta þeim í þrjá flokka:

  1. Græn verkefni (loftslags- og umhverfismál); t.d. innviðir fyrir rafhjól og reiðhjól, orkuskipti í bílaflota og þungaflutningum, grænar byggingar, varnir gegn snjóflóðum og náttúruvá, aðlögun að hringrásarhagkerfinu, endurheimt votlendis o.fl.
  2. Blá verkefni (loftslags- og umhverfismál tengd hafinu, sjávarútvegi og tengdum greinum); t.d. rafvæðing hafna, orkuskipti skipa og ferja, átak í fráveitumálum o.fl.
  3. Félagsleg verkefni; t.d. félagslegt húsnæði, sjúkrarými, atvinnusköpun m.a. COVID tengd útgjöld sem stuðningur við samfélagið og atvinnulífið o.fl.

Stjórnvöld hafa sett sér skýr markmið um sjálfbærni og jafnframt tekið á sig alþjóðlegar skuldbindingar um aðgerðir í loftslagsmálum ásamt því að hafa undirritað viljayfirlýsingu með fjármálakerfinu um sjálfbæra uppbyggingu. Markmið aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er að tryggja að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins til 2030 og metnaðarfullu markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Einn liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er sjálfbær fjármögnun ríkissjóðs, en sú aðgerð felur í sér að kanna fýsileika sjálfbærrar fjármögnunar og breikka hóp fjárfesta fyrir hefðbundnar lántökur ríkissjóðs. Aukin þörf ríkissjóðs fyrir lánsfé á næstu árum skapar tækifæri til sjálfbærrar fjármögnunar án þess að grafa undan markmiðum í lánastýringu sem snúa að dýpt, virkum markaði og reglulegri útgáfu.

Á árinu 2020 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra vinnuhóp til að kanna möguleika á sjálfbærri fjármögnun ríkissjóðs. Meðal verkefna vinnuhópsins var að skilgreina sjálfbæran fjármögnunarramma. Útgáfuramminn, sem byggir á alþjóðlegum stöðlum og viðmiðum, hefur hlotið dökkgræna einkunn (e. Dark Green) fyrir græn og blá verkefni sem skal fjármagna, sem er besta einkunn sem völ er á. Félagsleg verkefni fá jákvæða umsögn og stjórnarhættir í kringum sjálfbæra fjármögnun fá góða einkunn (e. Good). Álit og umsögn CICERO – Shades of Green, endurspeglar metnaðarfull langtímamarkmið stjórnvalda í umhverfis- og loftslagsmálum og þá miklu framsýni og vinnu sem lögð var í gerð rammans.

Aðrar þjóðir sem hafa hlotið álit CICERO Shades of Green eru: Indónesía (miðlungs grænt), Kenía (miðlungs grænt), Ungverjaland (miðlungs grænt) og Svíþjóð (dökkgrænt).

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira