Hoppa yfir valmynd
24. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Sterk rödd meðal þjóða

Sterk rödd meðal þjóða

Það líður varla sá dagur að Sameinuðu þjóðirnar rati ekki í fréttir og þá oftast í tengslum við stærstu áskoranir samtímans: heimsfaraldurinn, hraðfara loftslagsbreytingar og hryllileg átök og örbirgð. Samstarf sem spratt upp úr hörmungum tveggja styrjalda og hefur síðastliðin 76 ár verið mikilvægasti vettvangur starfs í þágu friðar, mannréttinda og framþróunar. Allar þjóðir, stórar sem smáar, hafa notið góðs af samstarfinu sem snertir nær allar hliðar tilverunnar: réttindi og skyldur ríkja, mannréttindi, umhverfisvernd, afvopnun, orkumál og stjórnarfar svo fátt eitt sé nefnt. Nú eru bráðum liðin 75 ár frá því að Ísland gerðist aðildarríki, 19. nóvember 1946. Starf Sameinuðu þjóðanna hefur sennilega aldrei verið eins brýnt og einmitt núna, enda viðfangsefnin ærin.

Ísland hefur frá upphafi verið öflugur málsvari alþjóðalaga, sjálfbærrar nýtingar auðlinda en síðast en ekki síst mannréttinda og jafnréttis. Ég hef sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra aukið þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna. Þróttmikil framganga Íslands í mannréttindaráðinu undirstrikar þá staðreynd. Við höfum á síðustu árum eflt samstarf við lykilstofnanir og sjóði Sameinuðu þjóðanna sem m.a. vinna að menntun og velferð barna, kynjajafnrétti, mæðravernd og kynfræðslu. Það er breiður stuðningur við þetta mikilvæga starf meðal Íslendinga eins og kannanir hafa ítrekað staðfest og öflugt starf landsfélaga Sameinuðu þjóðanna sýnir.

Nú stendur yfir 76. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og er kastljósinu eðlilega beint að stóru málunum á borð við heimsfaraldurinn, aðgerðir í loftslagsmálum en síðast en ekki síst hvernig við getum aukið traust og dregið úr spennu í alþjóðasamskiptum. Áherslur Íslands eru skýrar. Við munum til dæmis áfram beita okkur fyrir jafnari dreifingu bóluefna og höfum nú þegar lagt til umtalsverða fjármuni í það starf. Sérstaklega þarf að huga að því að uppbygging og þróun í kjölfar faraldursins stuðli að aukinni velsæld og sjálfbærni í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Öll ríki þurfa að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, standa við Parísarsamkomulagið og auka metnað í loftslagsmálum. Á sama tíma þarf að styðja tekjulægri ríki til að þróa lausnir í loftslagsmálum. Þar hef ég lagt sérstaka áherslu á að miðla af sérþekkingu Íslands í orkumálum og samþættingu jafnréttismála m.a. með því að efla þátttöku íslenskra fyrirtækja og félagasamtaka í þróunarsamvinnuverkefnum sem snúa að loftslagsmálum.

Það dylst engum að töluverða hræringar hafa verið að eiga sér stað í alþjóðastjórnmálum, sem endurspegla breytta heimsmynd og valdahlutföll. Ísland hefur, ásamt helstu samstarfsríkjum, beitt sér gagnvart þeim sem leitast við að veikja eða endurskilgreina  alþjóðalög, mannréttindi eða önnur grundvallarviðmið, sem hafa reynst okkur öllum vel.

Virk þátttaka í starfi Sameinuðu þjóðanna er og verður einn af hornsteinum íslenskra utanríkisstefnu og við ættum að nota 75. ára afmælið, 19. nóvember n.k., til ræða hvernig við viljum sjá Ísland leggja sitt af mörkum til að Sameinuðu þjóðirnar geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki til framtíðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. september 2021

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum