Hoppa yfir valmynd
4. október 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ísland gerist aðili að EGNOS-verkefninu

Ísland hefur gerst aðili að EGNOS-verkefninu, sem er samevrópskt leiðsögukerfi. Framkvæmdastjórn ESB samþykkti aðild Íslands í síðustu viku. Markmið með þátttöku Íslands er að þjónusta EGNOS kerfisins verði aðgengileg um allt yfirráðasvæði Íslands en landið liggur nú vestast á jaðri þjónustusvæðis EGNOS.

EGNOS (European Geostationary Navigation Overlay Service) er kerfi sem eykur nákvæmni þeirra leiðsögukerfa sem byggja á tímamælingum frá gervihnöttum, m.a. GPS-kerfis Bandaríkjanna og Galileo-kerfis Evrópusambandsins. EGNOS mun því nýtast sérstaklega vel þar sem krafist er mikillar nákvæmni og áreiðanleika, til að mynda við aðflug að flugvöllum.

Í EGNOS-kerfinu eru þrír gervihnettir og kerfi 45 jarðstöðva víðsvegar um Evrópu eða rétt utan hennar. Tvær slíkar jarðstöðvar eru staðsettar á Íslandi, á Egilsstöðum og í Reykjavík og er þeim viðhaldið af Isavia ANS ehf.

Ísland fær með aðild sinni rétt til setu á fundum stjórnarnefndar EGNOS-verkefnisins. Sigurbergur Björnsson, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í Brüssel, sótti fyrsta stjórnarfundinn í síðustu viku en þar var Ísland boðið velkomið í samstarfið. Á fundinum lýsti fulltrúi Íslands því yfir að forsendur og markmið fyrir þátttöku Íslands og framlagi til verkefnisins væri að tryggja að þjónusta EGNOS kerfisins væri aðgengileg um allt yfirráðasvæði Íslands. Ísland væri reiðubúið að vinna með stofnuninni eins og þyrfti til að stuðla að slíkri uppbyggingu.

Fulltrúi Íslands átti einnig fund með Matthias Petschke, framkvæmdastjóra geimvísindaáætlunar ESB, og Jean-Marc Pieplu, verkefnastjóra EGNOS, þar sem farið var yfir aðstæður á Íslandi og um mögulega stækkun þjónustusvæðis EGNOS.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira