Hoppa yfir valmynd
4. október 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Mælaborð með vísum um gæði og umfang heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt mælaborð sem veitir margvíslegar upplýsingar um gæði og umfang heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Mælaborðið endurspeglar þá vísa sem lagðir eru til grundvallar í fjármögnunarlíkaninu sem stýrir fjármögnun heilsugæslustöðva. Kerfið byggist á því að fjármagn til hverrar heilsugæslustöðvar endurspegli þann hóp fólks sem stöðin þjónar, umfang og gæði veittrar þjónustu og hversu vel viðkomandi stöð nær tilteknum markmiðum um ýmsa þætti þjónustunnar. Mælaborðið gerir meðal annars kleift að bera saman hvernig einstakar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu standa gagnvart þeim vísum sem fjármögnunarlíkanið tekur til.

Fjármögnunarlíkanið var tekið í notkun hér á landi árið 2017. Líkanið byggist á þekktri aðferðafræði við úthlutun fjármuna til heilsugæslu. Það hefur m.a. verið notað í Vestra Gautalandi í Svíþjóð og var það fyrirmynd líkansins sem hér er notað en lagað að íslenskum aðstæðum. Aðferðafræðin byggist á því að fjármagn til rekstrar hverrar heilsugæslustöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem viðkomandi stöð þjónar. Allir sjúkratryggðir íbúar landsins eru skráðir á heilsugæslustöð eða hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni nema þeir óski sérstaklega eftir að vera ekki skráðir. Í þeim tilvikum eru þeir látnir tilheyra stöð í samræmi við búsetu. Fjármögnun stöðvanna byggir helst á  áætluðu þjónustumagni á hvern einstakling út frá aldri, kyni og sjúkdómsbyrði. Einnig tekur kerfið tillit til félagslegra aðstæðna þeirra einstaklinga sem skráðir eru á stöðina og fleiri þátta s.s. nýtingu á rafrænni þjónustu í  Heilsuveru. Ýmis gæðaviðmið eru byggð inn í kerfið t.d. viðmið tengd lyfjagjöf eldra fólks, bólusetningum o.fl., en einnig eru gæðaviðmið sem snúa að skráningum, mælingum og verklagi.

Markmið um jafnræði, gegnsæi, gæði og skilvirkni

Með fjármögnunarlíkaninu eru gerðar skýrar og samræmdar kröfur til þjónustuveitenda og notaðar fyrirfram skilgreindar stýribreytur sem hafa á einn eða annan hátt áhrif á eftirspurn eftir þjónustu heilsugæslunnar. Með þessu móti er áhersla lögð á að gæta jafnræðis milli rekstraraðila heilsugæslustöðva við úthlutun fjármuna, auka gegnsæi við ákvarðanatöku, stuðla að auknum gæðum þjónustunnar í þágu notenda og auka skilvirkni með fjárhagslegum hvötum. Þetta styður jafnframt við markmið laga um heilbrigðisþjónustu um að heilbrigðisþjónusta skuli ávallt veitt á viðeigandi þjónustustigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, líkt og einnig er fjallað um í heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Í byrjun þessa árs var tekið í notkun fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni, sambærilegt því sem notað er á höfuðborgarsvæðinu, nema þar er til viðbótar tekið tillit til þátta sem snúa að smæð einstakra stöðva, fjarlægðrar milli rekstrarstöðva sem heyra undir sömu heilsugæslu og álags vegna vaktþjónustu og slysa- og bráðamóttöku. Greiðslur fyrir vitjanir lækna, ungbarnavernd og aðar vitjanir eru sömuleiðis innan líkansins. Heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni eru ekki aðgengilegar í meðfylgjandi mælaborði, enn sem komið er. Lýsingar á fjármögnunarkerfunum voru uppfærðar í september síðastliðnum og fylgja hér að neðan. Liður í uppfærslunni fólst í ráðstöfun 200 milljóna króna fjárveitingu til að efla geðheilbrigðisþjónustu við aldrað fólk sem býr heima og rúmlega 200 milljóna króna fjárveitingu sem er tímabundin til 12 mánaða, til að efla geðheilbrigðisþjónustu, m.a. sálfræðiþjónustu um allt land.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum