Hoppa yfir valmynd
13. október 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ísland styður fyrstu drög nýrrar stefnu Sþ um líffræðilega fjölbreytni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Ísland styður fyrstu drög að nýrri stefnu samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) til ársins 2030. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, greindi frá þessu í ávarpi sínu á sérstökum ráðherrafundi sem nú fer fram í Kunming í Kína í tengslum við fund aðildarríkja samningsins.

Ráðherra tók þátt í fundinum með rafrænum hætti, en þetta er fyrri hluti 15. aðildarríkjafundar CBD samningsins. Seinni hluti fundarins, þar sem m.a. á að samþykkja nýja stefnu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni til ársins 2030, verður haldinn næsta vor.

Mikill samhljómur var meðal ráðherra á fundinum um að setja skýra og markvissa stefnu fyrir samninginn með áherslu á að hægja á og stöðva eyðingu líffræðilegrar fjölbreytni og aðgerðum til þess að endurheimta löskuð vistkerfi. Lögð var áhersla á metnaðarfulla stefnu, til að koma líffræðilegri fjölbreytni á braut endurheimtar, mælanlegum markmiðum og viðmiðunum um árangur sem byggi á vísindalegri nálgun og vöktun.

Guðmundur Ingi sagði Ísland styðja fyrstu drög stefnunnar. Hér á landi sé unnið að nýrri stefnu og aðgerðaáætlun um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og íslensk stjórnvöld stefni á að þeirri vinnu verði lokið fyrir fundinn næsta vor.

Markmið Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni eru þrjú: að vernda líffræðilega fjölbreytni, stuðla að sjálfbærri nýtingu hennar og tryggja ráðstöfunarrétt ríkja yfir erfðaefni sínu og skiptingu hagnaðar af nýtingu þess.

Guðmundur Ingi sagði Ísland vera nálægt því að ná uppsettu markmiði draganna um 30% þekju verndaðra svæða á landi, en eigi mun lengra í land hvað hafið varðar.

Þá hafi íslensk stjórnvöld tekið svonefndri Bonn-áskorun og þar með staðfest markmið fyrir Ísland um að meira en þrefalda þekju birkiskóga á landinu. Árið 2030 eigi því að vaxa birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú. Sagði ráðherra áherslu vera á vernd og endurheimt vistkerfa, aukna vöktun og rannsóknir á áhrifum landnotkunar á koldíoxíð í jarðvegi, sem og framfylgni viðmiða um sjálfbæra landnotkun.

Í lok ráðherrafundarins flutti ráðherra lokaávarp fyrir hönd svæðisbundins hóps s.k. JUSCANZ ríkja þar sem kínverskum stjórnvöldum var þakkað fyrir að halda fundinn og ítrekað að vinnan fram undan við mótun nýrrar stefnu samningsins væri mikilvæg fyrir næstu kynslóðir og að tryggja þurfi nægan stuðning við framkvæmd hennar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira