Hoppa yfir valmynd
18. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Formaður hermálanefndarinnar heimsótti Ísland

Bauer aðmíráll, 4. frá vinstri. Honum til hægri handar er Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og vinstra megin er Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands - myndLandhelgisgæslan

Rob Bauer, aðmíráll, formaður hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins, heimsótti Ísland dagana 14.-16. október. Meðan á heimsókninni stóð fundaði hann með Martin Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra og fleiri embættismönnum ráðuneytisins. Öryggis- og varnartengd málefni voru í forgrunni ásamt framlögum og þátttöku Íslands í verkefnum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Bauer fékk jafnframt kynningu á aðstæðum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, heimsótti Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík. Þá átti hann fund á Alþingi með Njáli Trausta Friðbertssyni, formanni Íslandsdeildar NATO-þingsins.

Bauer, sem er Hollendingur, var áður herráðsforingi (Chief of Defence) í heimalandi sínu. Um er að ræða fyrstu tvíhliða heimsókn hans til bandalagsríkis frá því hann tók við formannsembættinu í júní sl. af breska hershöfðingjanum Sir Stuart Peach.

Formaður hermálanefndar (Chair of the Military Committee, CMC) er hæst setti embættismaður hermálastarfsliðs Atlantshafsbandalagsins. Hann er ráðgjafi framkvæmdastjóra, Jens Stoltenberg, og talsmaður bandalagsins um hernaðartengd málefni. Hann stýrir starfi hermálanefndar sem veitir fastaráðinu ráðgjöf um hvernig bandalaginu beri að mæta helstu öryggisáskorunum á hverjum tíma. Í nefndinni eiga sæti hermálafulltrúar úr fastanefndum bandalagsríkjanna þrjátíu.

  • Bauer aðmíráll og Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð - mynd
  • Aðmírállinn kynnti sér m.a. kafbátaeftirlit bandaríska sjóhersins á Keflavíkurflugvelli - mynd
  • Starfsemi Flugbjörgunarsveitarinnar kynnt - mynd
  • Heimsókn í Alþingishúsið. Bauer aðmírál til hægri handar er Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins.  - mynd
  • Martin Eyjólfsson og Bauer aðmíráll - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum