Hoppa yfir valmynd
18. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Þátttaka utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í Hringborði norðurslóða

Tove Søvndahl Gant, forstöðukona sendiskrifstofu Grænlands á Íslandi, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Grænlandsnefndar utanríkisráðherra, ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í pallborðsumræðum um skýrslu Grænlandsnefndarinnar. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og utanríkisráðuneytið tóku virkan þátt í þriggja daga dagskrá Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle sem lauk um helgina. Í tengslum við ráðstefnuna átti Guðlaugur Þór fjölmarga tvíhliða fundi.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í tveimur málstofum á ráðstefnunni, annars vegar um nýafstaðna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, og hins vegar um tillögur Grænlandsnefndar sem settar voru fram í skýrslu nefndarinnar sem kom út í byrjun þessa árs. Utanríkisráðuneytið stóð einnig fyrir eða kom að sjö öðrum viðburðum á Hringborði norðurslóða.

Þar á meðal voru pallborðsviðræður um starf vinnuhópa Norðurskautsráðsins og málstofa í samvinnu við sendiráð Noregs um tvíhliða norðurslóðasamstarf landanna í tilefni tíu ára afmælis samstarfsins. Þar var enn fremur skrifað undir framlengingu viljayfirlýsingar og samstarfssamnings sem samvinnan byggir á.

„Hringborð norðurslóða hefur fyrir margt löngu fest sig í sessi sem einn mikilvægasti alþjóðlegi vettvangurinn þar sem málefni norðurslóða eru til umræðu. Mikilvægi norðurslóða verður sífellt ljósara og málefnin sem voru til umræðu á ráðstefnunni snerta hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti,“ segir Guðlaugur Þór.

Í tilefni af Hringborði norðurslóða kom fjöldi háttsettra erlendra ráðamanna til landsins. Ráðherra fundaði m.a. með Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Choi Jong-moon, varautanríkisráðherra Kóreu, Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja, bandarísku öldungadeildarþingmönnunum Lisu Murkowski og Sheldon Whitehouse, Virginijusi Sinkevicius, framkvæmdastjóra sjávarútvegs og umhverfismála Evrópusambandsins, og Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra skosku heimastjórnarinnar.

Á fundi Guðlaugs Þórs og Jeppe Kofod var alvarleg staða í Afganistan ofarlega á baugi. Ráðherrarnir ræddu einnig um ráðherrafund Norðurskautsráðsins sem markaði endalok formennsku Íslands í ráðinu í maí, þing Norðurlandaráðs sem fram fer í Kaupmannahöfn í byrjun nóvember og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í Glasgow í lok þessa mánaðar.

Á fundi ráðherra með Nicolu Sturgeon var loftslagsráðstefnan einnig í brennidepli en jafnframt voru málefni norðurslóða og formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu á dagskránni.

Viðræður um Uppbyggingarsjóð EES og bættan markaðsaðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir á Evrópumarkað voru helstu umræðuefnin á fundi Guðlaugs Þórs með Virginijusi Sinkevicius, framkvæmdastjóra sjávarútvegs- og umhverfismála. Þar var þráðurinn tekinn upp frá fundi þeirra í Brussel í júlí sl.

Ný skýrsla utanríkisráðuneytisins um samskipti Íslands og Færeyja og tillögur hennar um aukna samvinnu landanna voru aðalumræðuefnin á fundi ráðherra með Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja.

Tvíhliða samskipti Íslands og Suður-Kóreu, sextíu ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna og fjölþjóðleg samvinna voru til umræðu á fundi Guðlaugs Þórs með Choi Jong-moon, varautanríkisráðherra Suður Kóreu. Norðurslóðamál voru einnig á dagskrá.

Málefni norðurslóða og formennska Íslands í Norðurskautsráðinu voru meginumræðuefni fundar Guðlaugs Þórs með tveimur öldungareildarþingmönnum Bandaríkjaþings, þeim Lisu Murkowski frá Alaska, og Sheldon Whitehouse frá Rhode Island. Murkowski er forsvarsmaður hóps þingmanna um norðurslóðir í öldungadeildinni og er fastagestur á Hringborði norðurslóða. Whitehouse er meðal annars stofnandi Ocean Caucus, hóps öldungadeildarþingmanna sem lætur sig verndun hafsins varða.

Þá fundaði ráðherra einnig með Rupert Howes, forstjóra samtakanna Marine Stewardship Council, um alþjóðlegar og sjálfbærar fiskveiðar, en Howes var framsögumaður á málstofu um alþjóðlegar fiskveiðar í Norður-Atlantshafi á Hringborði norðurslóða.

  • Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, átti tvíhliða fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í pontu á Arctic Circle.
  • Á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Choi Jong-moon, varautanríkisráðherra Kóreu.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur.
  • Einar Gunnarsson, sendiherra og fyrrverandi formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, Marie-Anne Coninsx, fyrrverandi sendiherra Evrópusambandsins fyrir málefni norðurslóða, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fundaði einnig með  Virginijusi Sinkevicius, framkvæmdastjóra sjávarútvegs og umhverfismála Evrópusambandsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira