Hoppa yfir valmynd
22. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Öryggis- og varnarmál í deiglunni í Brussel

Fulltrúar aðildarríkja Norðurhópsins - mynd

Öryggis- og varnarmál í Evrópu og á Atlantshafi og samstarf Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins voru efst á baugi á tveggja daga fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins sem lauk í dag. Auk þeirra tóku Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands, og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar þátt í fundinum.

Í ljósi vaxandi öryggisáskorana létu ráðherrarnir í ljós ríkan vilja til að leita frekari leiða til samstarfs sem geti endurspeglast í endurskoðaðri grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins, sem lögð verður fyrir næsta leiðtogafund í júní á næsta ári, og nýjum vegvísi ESB í utanríkis- og öryggismálum.

Reglubundin umræða um fælingar- og varnarstefnu bandalagsins fór fram á fundinum þar sem ný heildaráætlun um varnir á hættu- og ófriðartímum og uppfærð markmið um varnarviðbúnað voru  samþykkt. Þá var fjallað um kjarnavopnafælingu og stöðu afvopnunarmála. Ráðherrarnir ræddu málefni Afganistans og þá vinnu sem nú stendur yfir við að leggja mat á þann lærdóm sem draga má af starfi Atlantshafsbandalagsins þar í landi.

Staða og þróun öryggismála í norðurhluta Evrópu, á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, hernaðaruppbygging Rússlands og áhyggjur af þróun mála í Belarús voru efst á baugi á ráðherrafundi Norðurhópsins síðastliðinn miðvikudag. Finnland fer með formennsku í hópnum um þessar mundir en um áramót tekur Ísland við formennskukeflinu til sex mánaða. Norðurhópurinn er samráðsvettvangur Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Bretlands, Hollands, Póllands og Þýskalands um öryggis- og varnartengd málefni sem starfað hefur frá árinu 2011 undir forystu Bretlands.

Hermann Örn Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu tók þátt í fundunum fyrir Íslands hönd.

  • Frá fundi Norðurhópsins. F.v. Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, Hermann Örn Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum