Hoppa yfir valmynd
28. október 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áskorun stofnana að veita sífellt betri og skilvirkari þjónustu

Áskorun stofnana að veita sífellt betri og skilvirkari þjónustu  - myndStjórnarráðið

Áskorun ríkisstofnana felst í því hvernig sífellt er hægt að veita betri og skilvirkari þjónustu og hafa stjórnendur stofnana sýnt mikinn styrk og dug við að halda dampi undanfarin misseri, meðan á heimsfaraldri kórónuveiru hefur staðið. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á árlegum degi stjórnenda stofnana sem haldinn var í dag þar sem yfirskriftin var „Stjórnendur sem frumkvöðlar umbóta“.

Bjarni sagði að nú þegar við sjáum vonandi fyrir endann á faraldrinum gefi vísbendingar um gang efnahagslífsins ástæðu til bjartsýni. Áskoruninni sé hins vegar ekki lokið og við blasi hallarekstur næstu ár. Þannig verði það verkefni stjórnvalda og stofnana að minna hallann á sama tíma og tekist er á við nýjar áskoranir.

„Öldrun þjóðarinnar, fjórða iðnbyltingin, loftslagsbreytingar og stöðug tækniþróun skapa verkefni sem reyna á ykkur stjórnendur. Á mörgum sviðum þurfum við að hugsa hlutina upp á nýtt,“ sagði Bjarni og vísaði til áherslu sitjandi ríkisstjórnar á nýsköpun og stafræna þjónustu.

„Það er skýrt markmið okkar að vera meðal fremstu þjóða heims í stafrænni þjónustu næstu ár og áratugi. Við höfum nýtt fjárfestingarátakið vegna heimsfaraldursins sérstaklega í þessu skyni og gefið í þegar kemur að stafrænni þróun. Þar hafa ykkar stofnanir spilað stórt hlutverk og það ber að þakka. Með því að vera leiðandi á þessum vettvangi bætum við ekki bara þjónustuna, heldur ýtum líka undir jarðveg fyrir stórfjölgun í verðmætum þekkingarstörfum á Íslandi,“ sagði ráðherra.

Sérstök áhersla á innleiðingu umbóta

Alls tóku yfir 100 stjórnendur stofnana þátt í stjórnendadeginum. Þar var m.a. rætt um innleiðingu stjórnendastefnu ríkisins, sem tók gildi 2019, og sérstök áhersla á hvernig stjórnendur hafa innleitt umbætur í starfsemi sína. Stjórnendur ræddu á vinnustofu um áskoranir í leiðtogahlutverkinu, deildu reynslu sinni af þeim og fengu innblástur varðandi eigin starfsþróun.

Þá kynntu umbótateymi fjármála- og efnahagsráðuneytisins fjölbreytt verkefni sem ráðuneytið hefur unnið að, svo sem í gegnum Stafrænt Ísland, nýjan samning við Microsoft Office, niðurstöður Nýsköpunarvogarinnar og hlutverk stofnana í grænni umbyltingu með áherslur á sjálfbær innkaup. Þá var farið í umbótavinnustofu með stjórnendum um hvað þarf að gera til þess að bæta starfsemi hins opinbera til þess að geta tekist á við áskoranir framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira