Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2021 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Menningarverðlaun Norðurlandaráðs 2021

Menningarverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í Kaupmannahöfn í kvöld. Alls eru 54 verk, verkefni og listamenn frá öllum Norðurlöndunum tilnefnd til verðlaunanna fyrir umhverfismál, tónlist, kvikmyndir, bókmenntir og barna- og unglingabókmenntir. Markmið þeirra er að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi og draga fram framúrskarandi verk og verkefni á sviði menningar og umhverfismála.

Íslenskar tilnefningar til verðlaunanna eru að þessu sinni:
Barnabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur og Grísafjörður eftir Lóu Hjálmtýsdóttur.
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason og Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur.
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs: Þorgerður Ingólfsdóttir, kórstjóri, og Víkingur Ólafsson, píanóleikari.
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs: Alma í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur.
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs: Tæknilausnin Thor Ice Chilling Solutions.

„Listir og menning eru ákveðinn hornsteinn í tengslum norrænu ríkjanna og tilnefningar til menningarverðlaunanna mikill heiður. Þau eru viðurkenning á því öfluga menningarstarfi sem blómstrar hér á landi og á hinum Norðurlöndunum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem verður viðstödd verðlaunahátíðina í kvöld.

Verðlaun Norðurlandaráðs eru á meðal virtustu verðlauna Norðurlanda og hljóta jafnan mikla alþjóðlega athygli. Bókmenntaverðlaunin eru elst af verðlaununum fimm en þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafa. Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í tengslum við 73. þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn þar sem þingmenn, ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn frá öllum Norðurlöndunum koma saman og ræða sameiginleg málefni og stefnumótun.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira