Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Fjármögnun og framboð á námsstöðum í sér- og framhaldsnámi heilbrigðisstétta

  - myndStjórnarráðið
Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu vinnur nú að því að kortleggja hve margar náms- og sérnámsstöður eru fyrir hendi á heilbrigðisstofnunum, greint eftir heilbrigðisstéttum. Heilbrigðisráðuneytið fól landsráði í ágúst sl. að rýna fjármögnun sérnáms á heilbrigðisstofnunum. Í kjölfarið lagði landsráð fram skilgreindar tillögur til heilbrigðisráðherra um leiðir til að tryggja að ávallt liggi fyrir upplýsingar um framboð og mat á þörf fyrir þessar stöður. Heilbrigðisráðherra féllst á tillögur landsráðs sem fela einnig í sér kröfu um að fjármagn til framhaldsnáms og sérnáms í heilbrigðisgreinum verði skilgreint sérstaklega. Með framhaldsnámi og sérnámi er átt við viðbótarnám og sérhæfingu heilbrigðisstarfsmanna sem fer að hluta eða öllu leyti fram innan heilbrigðisstofnana eða í öðru klínísku umhverfi og getur verið launað. Í framhaldi af erindi heilbrigðisráðuneytisins leitaði landsráð til heilbrigðisstofnana og háskólanna. Landsráð óskaði eftir  upplýsingum, m.a. um samstarf þessara aðila, um framboð námsplássa, kostnað og rekstrarliði vegna launaðs framhaldsnáms og sérnáms og um forgangsröðun fjármagns til sérhæfingar með hliðsjón af heilbrigðisstefnu. Einnig óskaði landsráðið eftir ráðleggingum vegna fjármögnunar sérnáms hjá heilbrigðisstofnunum. 

Helstu niðurstöður sem vinna landsráðs leiddi í ljós eru m.a. að;

  • fjármögnun framhalds- og sérnáms er yfirleitt ekki skilgreind sérstaklega sem kostnaðar- eða rekstrarliðir, hvorki innan heilbrigðisstofnana, í framlögum til þeirra eða í fjárlögum
  • yfirsýn yfir stöðufjölda í framhalds- og sérnámi skortir
  • forgangsröðun þegar auka þarf framboð á námsstöðum í einstökum greinum er óskýr
  • kröfur til einstaklinga í framhalds- og sérnámi eru ólíkar milli faghópa og milli háskóla
  • munur er á stuðningi og þóknunum til þeirra sem sinna handleiðslu eða klínískri kennslu eftir heilbrigðisstofnunum og sérgreinum. 

Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögur um verkefni og aðgerðir sem landsráð telur mikilvægt að ráðast í með það að markmiði að fá yfirsýn yfir fjölda einstaklinga í framhalds- og sérnámi í heilbrigðisgreinum, auka gegnsæi og samræmi þegar teknar eru ákvarðanir um fjármögnun og fjölda stöðugilda í einstökum sérgreinum og skapa tækifæri til að bregðast tímanlega við yfirvofandi skorti eða offramboði á stöðum. Tillögurnar eru tvískiptar og fela annars vegar í sér verkefni sem unnin verði innan þriggja mánaða og hins vegar tillögur til næstu tveggja ára.

Verkefni til skamms tíma sem unnið er að;

  • Fjöldi framhalds- og sérnámsstaða verði kortlagður.
  • Skilgreint verði hve háu hlutfalli fjármagns til heilbrigðisstofnana skuli varið í framhalds- og sérnámsstöður.
  • Heilbrigðisstofnunum verði falið að greina kostnað sem varið er í umræddar stöður og upplýsa landsráð um kostnaðinn ár hvert.
  • Óskað verði eftir greinargerð háskólanna um þörf á sérnámsstöðum í þeim greinum sem ekki hafa slíkar stöður í dag.
  • Embætti landlæknis verði í samráði við landsráð falið að skoða möguleikann á því að  setja á fót númerakerfi fyrir hverja sérgrein svo tryggja megi að ávallt sé fyrir hendi yfirsýn yfir væntanlega sérfræðinga fram í tímann.

Tillögur til lengri tíma

Gert er ráð fyrir að innan tveggja ára verði fjöldi fjármagnaðra stöðugilda í sér- og framhaldsnámi ákveðinn árlega á miðlægum vettvangi og að fjármögnunin verði veitt í hlutfalli við námsstöður á hverri stofnun.  Landsráð mun jafnframt skoða í samráði við menntamálaráðuneytið og embætti landlæknis hvort setja skuli á fót framhaldsmenntunarráð fyrir framhalds- og sérnám í heilbrigðisgreinum. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum