Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra opnar kortavefsjá sem sýnir skurðaþekju Íslands

Opnun upplýsingavefs um votlendi. F.v. Sigmundur Helgi Brink sérfræðingur og Þórunn W. Pétursdóttir frá Landgræðslunni, Guðmundur I. Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Árni Bragason landgræðslustjóri, Fanney Ósk Gísladóttir og Jón Guðmundsson frá Landbúnaðarháskóla Íslands. - myndDúi J. Landmark

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði í gær nýjan upplýsingavef Landgræðslunnar um votlendi og áhrif framræslu þess á lífríki og losun gróðurhúsalofttegunda. Á vefnum er einnig að finna nýja kortavefsjá sem sýnir legu skurða á landinu og byggir hún á upplýsingum frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Áætlað er að 47% alls votlendis á Íslandi hafi verið raskað með framræslu, þar af allt að 70% votlendis á láglendi. Nákvæmar upplýsingar um skurðakerfi landsins, eins og þær sem settar eru fram í kortasjánni, eru grunnur þess að hægt sé að velja og forgangsraða endurheimt votlendis, svo sem eftir legu svæða í landi, staðsetningu innan vatnasviða, loftslagsábata endurheimtar og mögulegum ávinningi þeirra fyrir lífríki.

„Kortavefsjáin er mikilvægt tól í aðgerðum í þágu bæði loftslags og líffræðilegrar fjölbreytni og samlegðarinnar þar á milli. Við höfum á undanförnum árum aukið fjármagn í rannsóknir á losun gróðurhúsalofttegunda frá votlendi og lagt áherslu á aðgerðir í þágu verndar og endurheimtar þess m.a. með sérstakri aðgerðaáætlun um verndun votlendis sem byggir á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030. Ég bind miklar vonir við að öll þessi tól séu gagnleg við að koma okkur hraðar að markmiðunum um að auka vernd og endurheimt votlendis á Íslandi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra við opnun kortavefsjárinnar.

Votlendi eru mikilvæg vistkerfi og er endurheimt votlendis öflug loftslagsaðgerð sem skilar vistfræðilegum og hagrænum ábata og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Votlendi býr einnig yfir afar fjölbreyttu lífríki, getur dempað flóðasveiflur á vatnasviðum og er mikilvægt búsvæði ýmissa fuglategunda. Endurheimt votlendis er því öflug aðgerð til að vernda líffræðilega fjölbreytni og efla vatnsmiðlun.

  • Ráðherra virðir fyrir sér nýja kortasjá Landgræðslunnar. - mynd
  • Vefsjáin gerir kleift að sjá þekju mismunandi landflokka. Á meðfylgjandi mynd má skurðaþekju á Suðurlandi á svæðinu milli Þjórsár og Hólsár. Brúnu svæðin sýna það votlendi sem hefur verið raskað með skurðagreftri. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum