Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2021 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Samstarfsráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, ávarpar þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, sótti þing Norðurlandaráðs sem haldið var í Kaupmannahöfn dagana 1-4. nóvember. Í tengslum við þingið funduðu samstarfsráðherrarnir með forsætisnefnd Norðurlandaráðs þar sem rætt var um fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar til næsta árs, viðbrögð landanna við heimsfaraldrinum og stjórnsýsluhindranir sem bitna á norrænum borgurum. Ánægja var með að samkomulag náðist milli Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs um auknar fjárveitingar til menningarmála innan fjárlaga 2022.

Rætt var um tillögur sem kynntar voru fyrir ráðherrunum í stefnumótandi úttekt Jan-Erik Enestam á norrænu samstarfi á tímum kórónufaraldursins og í framtíðinni. Meðal annars leggur úttektin til tillögur um mikilvægi meiri samræmingar og upplýsingaskipta, betri viðbúnaðar með viðvörunarkerfi, sameiginlegum greiningum og æfingum fyrir mismunandi aðstæður og loks verkefni um sameiginlegt útboð á bóluefnum og viðbúnaðarbirgðum. Þessi mál voru einnig á dagskrá á sérstökum fundi samstarfsráðherrana fyrr um daginn.

Fundaði með vestnorrænu ríkjunum

Einnig fundaði Sigurður Ingi samstarfsráðherra með fulltrúum vestnorrænu ríkjanna, Færeyjum og Grænlandi, þar sem rætt var um hvernig hægt væri að efla og gera skilvirkara samstarf landanna þriggja. Í þessu sambandi funduðu ráðherrar og fulltrúar með forsætisnefnd vestnorræna ráðsins, þar sem einnig er miðað að því að auka samstarfið, og fjallað var um helstu mál vestnorræna ráðsins og hvernig samstarfsráðherrarnir gætu stutt þau. Þá upplýstu samstarfsráðherrarnir um helstu mál og verkefni norrænu ráðherranefndarinnar.

Í sérstökum fyrirspurnatíma samstarfsráðherra á þinginu svaraði Sigurður Ingi fyrirspurn frá Evu Dögg Davíðsdóttur frá Norðurlandaráði æskunnar. Eva Dögg spurði hvernig norrænu þjóðirnar gætu gengið ennþá lengra í því að vinna saman að kolefnishlutleysi, einnig hvort að ráðherrarnir sæju tækifæri fólgin í því að Norðurlöndin settu sér bindandi, sameinginleg markmið í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.

Í svari sínu sagði Sigurður Ingi að sett hafi verið fram áætlun um framtíðarsýn til 2030, um samstarf Norðurlanda. Framtíðarsýnin væri metnaðarfull og í henni væru talsvert af góðum möguleikum á að ná umræddum árangri. En til þess þurfi að vinna saman, fá fyrirtæki og atvinnulífið í öllum löndunum til að taka höndum saman, og fá almenning til samstarfs. Samstarfsráðherra sagði vonast til að við næðum þessu takmarki og gætum þar af leiðandi svarað spurningum þínum játandi, þótt að það sé ekki hægt í dag, fyrir hönd allra ríkisstjórna á Norðurlöndum.

Sigurður Ingi sótti einnig verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs, sem fór fram í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn. Meðal kynna og gesta voru Friðrik krónprins Danmerkur, Mary krónprinsessa. Þingfulltrúum var einnig boðið í hádegismóttöku til hennar hátignar Margrétar Þórhildar Danadrottningar, og var Sigurður Ingi meðal gesta.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, ræðir við þinggest á Norðurlandaráðsþingi.. - mynd
  • Samstarfsráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum