Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ísland hefur mikla hagsmuni af því að stöðva loftslagsvá

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra í viðtali við Al Jazeera-sjónvarpsstöðina. - mynd

Ísland hefur mikla hagsmuni af því að góð niðurstaða náist á Glasgow-fundinum um loftslagsmál, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra í viðtali við Al Jazeera-sjónvarpsstöðina í gær. Hann sagði afleiðingar loftslagsbreytinga vera mjög sýnilegar á Íslandi, þar sem jöklar hörfuðu hratt. Sumar alvarlegustu breytingarnar séu þó ósýnilegar, eins og súrnun sjávar, sem sé þögul ógn við lífríki hafsins.

Ráðherra sagðist vera ívið bjartsýnni nú en við upphaf ráðstefnunnar, sem er 26. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Þar komi m.a. til yfirlýsingar um árangur á ýmsum sviðum, s.s. varðandi losun metans og stöðvun skógareyðingar, auk þess sem vonandi þokist áfram varðandi niðurstöðu um fjármögnun loftslagsaðgerða í þróunarríkjum. Aðspurður sagði Guðmundur Ingi  öll ríki þurfa að taka þátt og sýna vilja í verki.

Ráðherra tók einnig þátt í viðburði um jafnréttissáttmála í orkumálum, sem er verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna, en Ísland er eitt af fimm ríkjum sem styðja verkefnið. Viðburðinum var stýrt af Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands. Sagði Guðmundur Ingi nauðsynlegt að konur komi að borðinu við ákvarðanatöku og aðgerðir í orkumálum eins og á öðrum sviðum. Veruleg breyting hafi orðið í rétta átt á Íslandi, þó að enn sé nokkuð í land. Sagði hann Ísland munu styðja við jafnréttisáherslur í alþjóðlegum verkefnum í jarðhitanýtingu og á öðrum vettvangi sem tengist orkumálum.

Þá sótti ráðherra kvöldverðarfund þar sem rætt var um lausnir til að draga úr losun í fluggeiranum. Þar hitti hann stuttlega John Kerry, sérstakan loftslagsfulltrúa Joe Bidens Bandaríkjaforseta og Pete Buttigieg, samgönguráðherra Bandaríkjanna.

  • Ráðherra tók þátt í viðburði um jafnréttissáttmála í orkumálum. Viðburðinum var stýrt af Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands (lengst t.v.).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira