Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Ísland styrkir starf mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis – og þróunarsamvinnuráðherra átti fjarfund með mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í gær í tilefni undirritunar rammasamnings um stuðning við skrifstofu mannréttindafulltrúans (OHCHR) um 20 milljónir króna á ári næstu þrjú árin, 2021 til 2023. 

„Ísland hefur ákveðið að styrkja skrifstofu mannréttindafulltrúa SÞ með kjarnaframlögum og sveigjanlegu, fyrirsjáanlegu fjármagni,“ sagði Guðlaugur Þór. „Í þróunarsamvinnustefnu Íslands eru mannréttindi lögð til grundvallar öllu starfi stjórnvalda og er samningurinn sem við undirrituðum liður í að fylgja því eftir.“ Hann sagði samninginn einnig vera hluti af góðu samstarfi við skrifstofu mannréttindafulltrúa SÞ á vettvangi mannréttindaráðs SÞ í Genf en Ísland átti þar sæti um átján mánaða skeið 2018-2019.

Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi SÞ, undirritaði samninginn fyrir hönd skrifstofunnar.

Á fundinum ræddu þau Guðlaugur Þór og Bachelet stöðu mannréttinda í heiminum, mikilvægi kynjajafnréttis og réttindi hinsegin fólks. Utanríkisráðherra ræddi sérstaklega bága stöðu mannréttinda í Afganistan og lagði áherslu á að tryggja þyrfti virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarlögum, ekki síst réttindi kvenna og stúlkna. Einnig var þátttaka Íslands á vettvangi mannréttindaráðsins rædd og fagnaði Bachelet framboði Íslands til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025-2027. 

Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er leiðandi stofnun um verndun mannréttinda í heiminum. Verkefni stofnunarinnar er að varpa ljósi á og þróa viðbrögð við mannréttindaáskorunum, annast rannsóknir og tæknilega ráðgjöf, veita upplýsingar og bera uppi málsvörn á sviðinu. Stofnunin leggur áherslu á hlutlæga umræðu um mannréttindi, aðstoðar stjórnvöld að uppfylla skyldur sínar og styður einstaklinga sem krefjast réttar síns. Starfsemin hvílir á Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum lykilsamningum og yfirlýsingum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum