Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2021 Innviðaráðuneytið

Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa haldinn 21. nóvember

Fjölmargir viðbragðsaðilar sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verða. - myndMynd/EMM

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn sunnudaginn 21. nóvember. Í ár verður kastljósinu meðal annars beint að afleiðingum þess ef öryggisbelti eru ekki notuð. 

Táknrænar minningarstundir verða haldnar hringinn í kringum landið í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörgu en í fyrra voru fjölmargir slíkir viðburðir haldnir. Í ljósi faraldursins er fólk hvatt til að taka þátt í viðburðum í gegnum streymi á Facebook. Hægt er að nálgast allar upplýsingar um minningardaginn og dagskrá hans á vefnum minningardagur.is.

Einkennislag dagsins verður lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið verður flutt samtímis á öllum útvarpsstöðum á minningardaginn sjálfan kl. 14:00.

Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.

Alþjóðlegur minningardagur

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum.

Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915 hefur 1591 látist í umferðinni á Íslandi (til og með 10. nóvember 2021). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.

Það sem af er þessu ári hafa sex einstaklingar látið lífið í umferðinni hér á landi. Allt árið 2020 létust sjö einstaklingar í umferðinni en árið 2019 sex manns. Að meðaltali hafa undanfarin tíu ár 12 manns látist í umferðinni á hverju ári. Tíu ár þar á undan þ.e. frá 2001 til og með 2010 létust að meðaltali 20 manns á ári í umferðinni hér á landi.

Segja má að allt samfélagið deili með sér alvarlegum afleiðingum umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir slysin og megi þessi dagur efla vitund okkar fyrir því og ábyrgð. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum