Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ísland geti orðið sýnidæmi í grænni tækni

Ráðherra tók þátt í umræðum með norrænum þingmönnum og fulltrúum ungs fólks, ásamt öðrum, á viðburði þar sem nýjasta vísindaskýrsla IPCC var kynnt. - mynd

Norðurlöndin eiga mikla innistæðu fyrir yfirlýstum vilja sínum að vera leiðtogar í loftslagsmálum á heimsvísu, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra á málstofu á vegum Norðurlandaráðs á loftslagsráðstefnunni í Glasgow í gær, 10. nóvember. Dæmi um það séu hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku og að Norðurlöndin raði sér nú í fimm efstu sætin varðandi hlutdeild rafbíla af heildarsölu bifreiða á heimsvísu. Það þurfi þó að gera enn betur þannig að önnur ríki geti horft til Norðurlanda sem fyrirmynda til að ná settu marki í loftslagsmálum.

Ráðherra tók þátt í umræðum með norrænum þingmönnum og fulltrúum ungs fólks, ásamt öðrum, á viðburði þar sem nýjasta vísindaskýrsla IPCC var kynnt og síðan rætt um hvað Norðurlöndin og aðrir þurfa að gera til að bregðast við viðvörunum í henni. Ráðherra gerði að umtalsefni m.a. nauðsyn þess að flétta vernd lífríkis saman við loftslagsaðgerðir, að setja verð á kolefnislosun og efla fræðslu um loftslagsmál. Ungmennafulltrúi Íslands, Finnur Ricart Andrason, ávarpaði málstofuna og benti m.a. á nauðsyn þess að ræða loftslagsáhrif neyslu, réttlát umskipti í átt að grænna hagkerfi og nauðsyn þess að efla þátttöku ungs fólks í ákvörðunartöku, sem hafi mesta hagsmuni af því að draga úr skaða af völdum loftslagsvár.

Fundaði með samgönguráðherra Bandaríkjanna

Ráðherra átti stuttan fund með Pete Buttigieg, samgönguráðherra Bandaríkjanna, þar sem m.a. var farið yfir nýsamþykkt lög í Bandaríkjunum sem m.a. eiga að efla mjög innviði fyrir rafbíla og loftslagsvænni samgöngur, en einnig var rætt um mögulega fleti á samvinnu í loftslagsvænni tækni.

Ráðherra átti einnig fund með Sabine Monauni, varaforsætisráðherra Liechtenstein og umhverfisráðherra, þar sem rætt var um leiðir til að draga úr losun og ná kolefnishlutleysi. Monauni var áhugasöm um áætlanir Íslands til að draga úr losun og Carbfix-verkefnið, sem bindur kolefni í jarðlögum á Íslandi.

Þá átti umhverfisráðherra fund með Laurence Tubiana, sem var loftslagssendiherra Frakklands í aðdraganda Parísarfundarins 2015 og átti drjúgan þátt í samningu og samþykkt Parísarsamningsins. Tubiana stýrir nú hugveitu um sjálfbæra þróun, sem lætur sig loftslagsmál mikið varða. Ráðherra ræddi við hana einkum um leiðir til kolefnishlutleysi, ræddi stefnumótun Íslands og lögfest markmið í þeim efnum. Þá ræddu þau um reynslu og áætlanir annarra ríkja í þeim efnum.

Grænar lausnir frá Íslandi kynntar

Ráðherra heimsótti sýningu og umræðuvettvang atvinnulífsins og fleiri aðila, Sustainable Innovation Forum (SIF), sem haldinn er í tengslum við loftslagsfundinn. Þar er nú sérstakur bás íslenskra fyrirtækja á vegum Grænvangs, þar sem m.a. eru kynntar grænar lausnir frá Íslandi í orkumálum og á öðrum sviðum. Umhverfisráðherra tók þátt í fundi með Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, á aðalsviði SIF, þar sem þeir voru spurðir um reynslu Íslendinga af orkuskiptum í fortíð og nútíð og næstu skref í þeim efnum.

Ráðherra nefndi að Ísland væri nú í 2. sæti í heiminum í rafbílavæðingu. Halda þurfi áfram á þeirri braut og stefna að því að verða í fararbroddi í orkuskiptum varðandi m.a. skip og flugvélar. Taka þurfi ríkt tillit til sjónarmiða náttúruverndar í þeirri sókn, en vel eigi að vera hægt að ná markmiðum um orkuskipti innanlands án of mikilla fórna fyrir einstaka náttúru landsins. Ísland geti orðið sýnidæmi í grænni tækni, sem byði upp á samstarf íslenskra og erlendra aðila á því sviði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira