Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslensku menntaverðlaunin 2021

Íslensku menntaverðlaunanna voru afhent við hátíðlega athöfn í gær. Verðlaunahafar 2021 eru leikskólinn Aðalþing í Kópavogi, Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari við Klettaskóla, Þróunarverkefni um leiðsagnarnám og Vöruhúsið – miðstöð skapandi greina á Hornafirði.

Markmið verðlaunanna er að efla menntun og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

„Hér á landi er kraftmikið og fjölbreytt skólastarf. Við erum með ótrúlega öflugt fólk í menntakerfinu, sannkallaða eldhuga og brautryðjendur, og það skiptir sköpum að geta verðlaunað og hrósað fyrir gott og gjöfult starf á sviði menntamála. Ég óska verðlaunahöfum þessa árs hjartanlega til hamingju og hvet alla áhugasama til þess að senda inn tilnefningar næsta haust,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

• Í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur hlaut leikskólinn Aðalþing í Kópavogi verðlaunin fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti.

• Í flokknum framúrskarandi kennari hlaut Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari við Klettaskóla, verðlaunin fyrir framúrskarandi kennslu nemenda með fötlun, meðal annars fyrir að þróa nýjar leiðir til tjáskipta.

Þróunarverkefni um leiðsagnarnám hlaut verðlaunin í þeim flokki en því veitir forstöðu verkefnisstjórinn Nanna Kristín Christiansen. Það verkefni er af mörgum talið eitt öflugasta og áhrifamesta starfsþróunarverkefni sem sett hefur verið af stað í skólum Reykjavíkurborgar. 

Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna hlaut að þessu sinni Vöruhúsið – miðstöð skapandi greina á Hornafirði en Vilhjálmur Magnússon veitir því forstöðu. Vöruhúsið er einstakur vettvangur til kennslu nýsköpunar, list- og verkgreina á öllum skólastigum. Þar er boðið upp á formlegt og óformlegt nám í handverki, hönnun og hugmyndavinnu þar sem lögð er áhersla á þverfagleglega samvinnu.

Að verðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Sjá nánar á vefnum Skólaþróun.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum