Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2021

Athugun á áhrifum COVID-19 á þjónustu við fatlað fólk

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar gerði á tímabilinu nóvember 2020 til apríl 2021 athugun á áhrifum COVID-19 á gæði þjónustu við fatlað fólk. Tekin voru viðtöl við ýmsa aðila sem þóttu geta gefið góðar upplýsingar um efnið, þar á meðal fulltrúa hagsmunasamtaka og sérfræðinga í málaflokknum. Einnig var notast við fyrirliggjandi gögn, s.s. skýrslur viðbragðsteymis og uppbyggingarteymis. Hér eru dregnar fram helstu niðurstöður og þau atriði sem huga þarf að til að bæta frekar gæði þjónustu við fatlað fólk. Skýrsluna í heild má nálgast neðst í samantektinni.

Tryggja þarf að viðbragðsáætlanir taki tillit til fatlaðs fólks

Viðmælendur sögðu almannavarnir hafa áttað sig fljótlega á að viðbragðsáætlanir þeirra hafi ekki tekið sérstaklega tillit til fatlaðs fólks. Það hafi komið almannavörnum á óvart hversu stór og viðamikil þjónusta við fólk í þessum málaflokki væri. Síðan þá hafi verið unnið að því að bæta úr því, sýnileiki fatlaðs fólks hafi orðið meiri hjá almannavörnum og heilsugæslunni eftir því sem leið á faraldurinn. Tryggja þarf að viðbragðsáætlanir sveitarfélaga séu fyrir hendi til þess að vernda fatlað fólk í veirufaraldri og viðlíka ástandi.

Miðla þarf upplýsingum til samfélagsins með fjölbreyttum hætti

Mikilvægi góðrar upplýsingagjafar kom ítrekað fram í gögnum og viðtölum athugunarinnar. Afar mikilvægt sé að tryggja að öllum í samfélaginu sé gert kleift að fylgjast með umræðunni um þá vá sem steðjar að og að allir aðilar sem miðla upplýsingum geri slíkt með fjölbreyttum hætti, s.s. á táknmáli og auðlesnu máli, svo og með texta og fræðslu- og upplýsingamyndböndum. Þá kom fram að tryggja þurfi sérstaklega upplýsingamiðlun til fatlaðs fólks í sjálfstæðri búsetu með notendasamning eða NPA þjónustu og að skýra þurfi hver beri ábyrgð á þeirri upplýsingamiðlun og hver veiti ráðgjöf og stuðning.

Bregðast þarf við afleiðingum félagslegrar einangrunar

Í fyrstu bylgju faraldursins var vinnustöðum og félagsstarfi fyrir fatlað fólk víða lokað eða þjónustan útfærð með öðrum hætti en vanalega. Fram kom að ákveðnir hópar meðal fatlaðs fólks hafi þurft að einangra sig meira en aðrir og margir hafi orðið félagslega einangraðir. Þetta eigi sérstaklega við um fólk sem býr sjálfstætt, þ.e. er ekki í búsetu á vegum sveitarfélaga og var ekki í miklum tengslum við félagslega kerfið fyrir faraldurinn. Huga þarf sérstaklega að þessum hópi og gætu sumir verið í þörf fyrir félagslega endurhæfingu.

Huga þarf að stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði

Í viðtölunum komu fram áhyggjur af stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði á tímum heimsfaraldurs. Dæmi séu um að fólki með fötlun hafi verið sagt upp störfum vegna faraldursins og það sé slæmt að Vinnumálastofnun taki ekki saman upplýsingar um uppsagnir fólks sem er með atvinnu með stuðningi. Einnig var bent á að ráðningarstyrkir ríkisins hafi veikt stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði, þar sem ódýrara hefur reynst að ráða fólk með slíkum styrkjum en að ráða fatlað fólk í atvinnu með stuðningi.

Þörf er á átaki varðandi ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu

Hvorki varð fjölgun á tilkynningum um beitingu nauðungar né á óskum um ráðgjöf til sérfræðiteymis um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar. Bentu sérfræðingarnir á að það þýði ekki endilega að ekki hafi orðið aukning í beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk. Veltu þeir fyrir sér hvort þolmörkin gagnvart beitingu nauðungar hafi almennt hækkað í samfélaginu samhliða takmörkunum almannavarna, sem hafi haft í för með sér færri tilkynninga en búast mætti við. Fram kom sú vangavelta hvort nú væri búið að gefa ákveðið fordæmi um að nauðung sé sveigjanlegt úrræði þegar það hentar. Var lagt til að farið yrði í átak að faraldri loknum til að tryggja að farið sé eftir réttindagæslulögum varðandi ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk.

Áfram þarf að stuðla að sveigjanleika og þróun í þjónustu

Sveitarfélög fóru í umtalsverða endurskipulagningu á félagsþjónustu vegna faraldursins en viðbrögð sveitarfélaga og þjónustuaðila við faraldrinum voru afar ólík. Mörg dæmi voru um að við lokun starfsstaða hafi sveitarfélög fært vinnustaði starfsfólks inn á heimili fatlaðs fólks. Viðmælendur sögðu að nýta megi áfram þá nálgun að tengja þjónustuna minna við steinsteypuna og meira við einstaklingana sem þurfa á þjónustunni að halda. Þá varð faraldurinn til þess að margir þjónustuveitendur hafa breytt verklagi og vinnubrögðum sem hafi í mörgum tilvikum orðið til þess að bæta þjónustuna. Fram komu þó ábendingar um að rafræn þjónusta og þjónusta í gegnum síma henti ekki öllum.

Samstarf þjónustukerfa er lykilatriði í lausnum

Faraldurinn hefur orðið til þess að átakalínur milli þjónustukerfa hafi kristallast. Viðbrögð við áhrifum faraldursins kölluðu á samstarf margra aðila félags- og heilbrigðisþjónustu og jafnvel löggæslu. Skýrt þarf að vera hver hlutverk hvers og eins eru, hvar mörk á milli þjónustukerfa liggja og hvar kostnaður fellur til. Strax í upphafi faraldursins var mjög gott samráð og samstarf milli félagsþjónustu sveitarfélaga og deildarstjóra almannavarna og sögðu fulltrúar Reykjavíkurborgar samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu hafa verið lykilatriði í lausnum í þjónustu við fatlað fólk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira