Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2021 Matvælaráðuneytið

Ársfundur NEAFC 2021

Ársfundur Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC), sá 40. í röðinni, var haldinn í dagana 9.-12. nóvember. Ráðið fer með stjórn fiskveiða utan lögsagna ríkja á Norðaustur-Atlantshafi. Aðilar að NEAFC eru Bretar, Danmörk (varðandi Færeyjar og Grænland), Evrópusambandið, Ísland, Noregur og Rússland. Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (ANR) fór fyrir íslensku sendinefndinni á fundinum. Í sendinefndinni voru, auk fulltrúa ANR, fulltrúar utanríkisráðuneytisins, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslunnar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að stöðva veiðar á karfa á Reykjaneshrygg. Fyrir lá ráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) um að engar veiðar skyldu stundaðar sökum alvarlegs ástands stofnanna, en slík ráðgjöf hefur verið gefin út af ICES síðan 2016. Á ársfundinum 2020 náðist í fyrsta sinn að fá samþykkt veiðibann, en Rússar mótmæltu því og settu sér einhliða kvóta en Rússar viðurkenna ekki mat ICES á stöðu þessara karfastofna. ESB studdi ekki veiðibann á fundinum 2020 en mótmælti ekki niðurstöðunni og studdu nú áframhald veiðibannsins. Viðræður við Rússa um þetta mál munu halda áfram og var m.a. samþykkt á fundi NEAFC nú að óska eftir því að ICES skoði sérstaklega þau gögn sem Rússar byggja andstöðu sína á, í þeim tilgangi að komast nær sameiginlegri sýn á málefni karfa á Reykjaneshrygg.

Ekki liggur fyrir samkomulag strandríkja varðandi veiðar úr deilistofnunum síld, kolmunna og makríl. Því var ekkert samþykkt á fundinum annað en að ríkin skyldu setja sér takmarkanir og öðrum en aðildarríkjum væri óheimilt að veiða á stjórnunarsvæði NEAFC. Auk þessa voru samþykktar stjórnunarráðstafanir fyrir úthafið varðandi ýsu á Rockall banka, karfa í Síldarsmugunni og nokkra aðra fiskistofna.

Ýmsar tillögur nefnda og vinnuhópa NEAFC voru samþykktar, sem miða m.a. að því að efla enn frekar eftirlit á úthafinu og upplýsingagjöf varðandi veiðar.

Samþykktar var yfirlit yfir hvernig NEAFC hefur brugðist við því í ályktunum Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem beint er til svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana. NEAFC er þar með fyrsta slíka stofnun heimsins sem gerir slíka úttekt.

NEAFC er leiðandi á heimsvísu í vernd viðkvæmra botnvistkerfa, svo sem kórala og svampa, og í stjórn veiða á djúpsjávartegundum. Á fundinum var m.a. ákveðið að framkvæma árið 2022 heildarendurskoðun á þeim svæðum sem lokuð eru til að vernda viðkvæm botnvistkerfi. Var samþykkt að biðja ICES um sérstaka ráðgjöf í þessu sambandi svo svæðalokanirnar byggi á bestu mögulegu vísindaráðgjöf.

Janet Nørregaard frá Færeyjum sem var kjörinn forseti NEAFC á síðasta ársfundi stjórnaði ársfundi í fyrsta sinn, og var það jafnframt í fyrsta sinn sem kona stýrir ársfundi NEAFC. Fögnuðu fulltrúar Íslands sérstaklega þeim tímamótum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum