Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2021 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Samið um rekstur og listrænt starf Listasafns Sigurjóns Ólafssonar

Gengið hefur verið frá samningi við Rekstrarfélagið Grímu ehf. um rekstur og listræn störf á vegum Listasafns Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi. Félagið er í eigu fjölskyldu listamannsins sem mun annast daglegan rekstur, s.s. undirbúning og skipulagningu sýningarhalds, fræðslustarf, útgáfu og kynningu á verkum listamannsins á samningstímanum.

Sigurjón Ólafsson myndhöggvari var meðal helstu brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi og einn helsti portrettlistamaður sinnar samtíðar. Á langri starfsævi var Sigurjóni falið að gera fjölda opinberra verka og eru eftir mörg þekkt útilistaverk og veggskreytingar, þar á meðal lágmyndir á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar, Öndvegissúlurnar við Höfða, Íslandsmerkið á Hagatorgi og styttan af séra Friðriki Friðrikssyni við Lækjargötu.

Árið 1984 stofnaði Birgitta Spur, ekkja listamannsins Listasafn Sigurjóns Ólafssonar utan um höfundaverk hans. Safnið var fært íslensku þjóðinni að gjöf árið 2012 og Listasafni Íslands falið að halda utan um það sem eina heild.

„Það er fagnaðarefni að samningur um útvistun á rekstri Listasafns Sigurjóns Ólafssonar er kominn í höfn,“ segir Birgitta Spur.

Heildarfjárhæð samningsins er 97,5 milljónir kr., eða 19,5 milljónir kr. árlega á samningstímanum. Um er að ræða framlag vegna innri rekstrar en Listasafn Íslands leigir fasteignina af Ríkiseignum sem fer með miðlæga umsýslu hennar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira