Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þekkingarbrú fyrir börn og ungmenni

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Karin Elsbudóttir forstöðumaður Norðurbryggju og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.  - mynd
Þekkingarmiðstöð fyrir börn og ungmenni um líf og samfélag á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum hefur verið opnað í Kaupmannahöfn. Tranhuset er staðsett í Kristjánshöfn og er rekið í samvinnu við Norðurbryggju en markmið starfseminnar er að gefa dönskum börnum og ungmennum tækifæri til þess að kynnast nágrönnum sínum og veita þeim innsýn í sameiginlegan menningararf Danmerkur, Íslands, Færeyja og Grænlands.
Forstöðumaður Norðurbryggju, Karin Elsbudóttir, kynnti verkefnið fyrir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra í dag.

„Þetta er frábært framtak og ég fagna því að yngri kynslóðir í Danmörku fái tækifæri til þess að kynnast lífi og sögu þvert á löndin, sem eiga fleira sameiginlegt en margur heldur. Við Íslendingar deilum viðburðaríkri sögu með frændum okkar sem er forvitnilegt að skoða, til dæmis út frá menntun, menningu, stjórnmálum, jarðfræði og náttúruvísindum. Það er okkur öllum dýrmætt að efla þekkingu á aðstæðum og að sögunni sé miðlað svona faglega til yngri kynslóðarinnar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Í Tranhuset er meðal annars boðið upp á fjölbreytt námskeið um jarðfræði, orku og fiskveiðar landanna. Þar geta gestir fengið fjölbreytta fræðslu um íbúa, tungumál og menningu Íslands, Grænlands og Færeyja. Námskeiðin flétta m.a. saman sögu menningar og vísindaá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi fyrir mismunandi aldurshópa.

Sjá nánar á vef Norðurbryggju.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum