Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ávarp á minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa

Ávarp flutt á minningarstund um fórnarlömb umferðarslysa í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð 21. nóvember 2021

Forseti Íslands, aðstandendur, fulltrúar heilbrigðisstétta, lögreglu, björgunarsveita, samgöngustofnana og aðrir gestir.

Minningar eru stór og mikilvægur þáttur í tilveru okkar allra. Í minningum okkar birtast ástvinir sem hafa kvatt þessa jarðvist, í minningum okkar birtast liðnir atburðir, ljúfir jafnt sem sárir, og verða ljóslifandi hluti af tilveru dagsins í dag. Þessar minningar eru okkur stöðug áminning um það hversu lífið er gjöfult og hversu lífið getur verið miskunnarlaust.

Í dag kemur fólk saman um allan heim og minnist þeirra sem látið hafa lífið í umferðinni. Er þetta í tíunda sinn sem minningardagurinn er haldinn á Íslandi og í fjórða sinn sem mér hlotnast sá heiður að taka þátt í athöfninni sem ráðherra samgöngumála. Á þessum degi hugsum við líka til þeirra fjölmörgu sem slasast hafa alvarlega í umferðinni. Hugsum til þeirra sem hafa misst. Og á þessum degi þökkum við þeim sem starfa við björgun fólks úr umferðarslysum.

Sá sem hér talar þekkir alltof vel þann sársauka og þá sorg sem hlýst af því að missa ástvini í umferðarslysum. Þessi árlega minningarstund er falleg í eðli sínu þótt hún eigi rætur sínar í sorginni. En hvað er sorgin svo sem annað en ákveðin birtingarmynd af ást, af kærleika, til þeirra sem hafa verið kallaðir burt. Þessi árlega minningarstund er mikilvæg áminning um það hversu áríðandi það er að bæta vegakerfið og umferðarmenninguna.

Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru óásættanleg. Í minni vinnu og stefnumörkun hef ég lagt og mun áfram leggja höfuðáherslu á að mannslíf og heilsa séu ávallt höfð í öndvegi. Að öryggi sé metið framar í forgangsröðun aðgerða en ferðatími, þægindi eða önnur markmið framkvæmda í umferðarmálum. Ávallt þarf að hafa í huga að mannleg mistök eru óhjákvæmileg og það er mikilvægt að allt skipulag, hönnun og gerð umferðarmannvirkja taki mið af því.

Þróunin í umferðinni hefur verið jákvæð. Vegirnir okkar verða öruggari með hverju árinu og bílarnir einnig. Tilgangurinn með þeirri þróun er ekki sá að við getum ekið hraðar á betri bílum á betri vegum.

Og þá komum við að þeim þætti í umferðinni sem er örðugast að glíma við: Það að flest slys verða vegna mistaka okkar sjálfra og jafnvel gáleysis. Það er mikilvægt að við munum það þegar við sitjum undir stýri að það er líka sárt að vera örlagavaldur í lífi annarra, það er sárt að hafa með hugsunarleysi verið valdur að dauða og sársauka annarra.

Í Hávamálum segir:

Sorg etur hjarta,
ef þú segja né náir
einhverjum allan hug.

Þess vegna er dagurinn í dag mikilvægur. Það er mikilvægt að deila minningum sínum með öðrum. Það er mikilvægt að hlusta á minningar annarra. Munum að það er skylda okkar við okkar nánustu, skylda okkar við samfélagið, að við sýnum ábyrgð í umferðinni. Það er okkar skylda að læra af þeim sársauka sem við þekkjum alltof mörg og leggja okkar af mörkum til betri samgangna og betri umferðarmenningar.

Munum að við erum ekki ein á vegunum. Munum að í næsta bíl er manneskja sem elskar og er elskuð – alveg eins og við sjálf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira