Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Breytingar á aðalnámskrá grunnskóla: Íslenska sem annað mál, menningarfærni og fjöltyngi í skólastarfi

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur gert umfangsmiklar breytingar á aðalnámskrá grunnskóla og er unnið að kynningu á þeim fyrir skólasamfélagið. Markmið breytinganna er að tryggja börnum með annað tungumál en íslensku og öðrum fjöltyngdum börnum menntun sem undirbýr þau undir virka þátttöku í samfélaginu og nám á öðrum skólastigum.

„Þessar breytingar eru mikilvægur liður í því að efla umgjörð í menntakerfinu til að mæta betur aðstæðum nemenda með annað móðurmál en íslensku, sem er forgangsmál eins og sjá má í aðgerðaáætlun nýrrar menntastefnu. Nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn þurfa fjölþættan stuðning til þess að ná sem mestum árangri. Þar skiptir fagfólk í skóla- og frístundastarfi lykilmáli og virk samvinna þeirra. Ég þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessu verkefni, samhugur þeirra og skýr sýn skilar sér í hnitmiðari framsetningu og markvissum ráðleggingum sem ég hvet alla til að kynna sér,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Breytingarnar felast í endurskoðun á umfjöllun um íslensku sem annað tungumál sem byggir á tungumálaramma Evrópuráðsins og nýjum köflum sem fjalla um menningarfærni, móttöku nýrra nemenda og fjöltyngi.

Samráð um breytingar

Víðtækt samráð var haft við skólasamfélagið við mótun og útfærslu breytinganna en þá vinnu leiddi Þorbjörg Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun. Breytingar á aðalnámskrá grunnskóla verða innleiddar í samvinnu við Menntamálastofnun m.a. með útgáfu stuðningsefnis í námsgreinum, fræðsluvef um kennslu íslensku sem annars máls, útgáfu námsefnis í íslensku sem öðru tungumáli, fræðslufundum og starfsþróunartilboðum.

Nýr vefur
Menntamálastofnun hefur sett í loftið vefinn adalnamskra.is þar sem nálgast má rafræna útgáfu gildandi aðalnámskrár grunnskóla. Vefsvæðinu er ætlað að dýpka umfjöllun um aðalnámskránna, vinna með kennslufræði námsgreina og margt það sem fram hefur komið að skorti í tengslum við stuðning um framkvæmd náms og kennslu.
Vefnum er ætlað að auðvelda aðgengi að námskránni og dýpka umfjöllun um hana, auk þess að skapa umgjörð um annað efni sem styður við framkvæmd hennar.

Helstu áherslur breytinganna:

• Ábyrgð á íslenskunámi hvílir á skólastjórnendum, umsjónarkennurum, íslenskukennurum og kennurum allra námssviða sem þurfa að vinna saman til að námið verði markvisst. Brýnt er að allt starfsfólk sem kemur að námi eða frístundastarfi nemenda sé upplýst um hæfni þeirra í íslensku og taki þátt í að styðja við námið.

• Markmið með kennslu íslensku sem annars máls eru að nemendur tileinki sér og læri íslensku þannig að þeir geti stundað alhliða nám í íslensku skólastarfi með jafnöldrum og tekið virkan þátt í samfélaginu. Gera má ráð fyrir að nemendur fylgi hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í tvö til fjögur ár. Eftir það fylgja þeir aðalnámskrá í íslensku samkvæmt aldurstengdum viðmiðum.

• Foreldrar bera ábyrgð á að styðja við íslenskunám barna sinna og að rækta og þróa eigið móðurmál til að stuðla að virku fjöltyngi. Mikilvægt er að foreldrar séu reglulega upplýstir um stöðu og framfarir barna sinna og þarfir þeirra til að foreldrarnir geti stutt við námið.

• Nemendahópurinn sem lærir íslensku sem annað tungumál er fjölbreyttur. Margt getur haft áhrif á íslenskunámið sem nauðsynlegt er að taka mið af, s.s. bakgrunnur, móðurmál og fyrri skólaganga. Hver einstaklingur hefur sinn sérstaka persónuleika, áhugasvið, þekkingu og námsgetu og aðrir þættir geta skipt máli, s.s. líðan, stuðningur heimilis, væntingar, áhugahvöt og hversu mikið nemandi leggur sig fram.

• Kanna skal námslega stöðu nemenda meðal annars á sterkasta tungumáli þeirra. Námsáætlun byggir á því mati að höfðu samráði við foreldra. Nemendur sem hafa náð færni í móðurmáli og öðrum tungumálum skulu hvattir og þeim gefin tækifæri til að tengja málin við íslensku. Þannig geta þeir byggt upp færni og þekkingu út frá hæfni í öðrum tungumálum.

• Við lok grunnskóla skal gefa nemendum lokaeinkunn í íslensku sem öðru tungumáli ef þeir hafa fylgt viðmiðum um hæfni samkvæmt hæfnirömmum íslensku sem annars tungumáls allt til loka grunnskóla. Á því mati skal áframhaldandi nám byggja. Þó ber að hafa í huga að nemendur þurfa markvissa kennslu og stuðning þegar þeir byrja að fylgja aldurstengdum viðmiðum í íslensku.

Sjá nánar eftirfarandi kafla aðalnámskrár:

19.3 Íslenska sem annað tungumál – breytingar á kafla
19.4 Hæfniviðmið í íslensku sem öðru tungumáli
7.12 Menningarfærni – nýr kafli
7.13 Móttaka nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn – nýr kafli
7.14 Fjöltyngi – nýr kafli



Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum