Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Reglugerð um sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns í Samráðsgátt

Dómsmálaráðuneytið hefur birt til umsagnar drög að nýrri reglugerð um ráðgjöf, sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns á grundvelli barnalaga nr. 76/2003 í Samráðsgátt stjórnvalda.

Drög að reglugerðinni byggja á núgildandi reglum um ráðgjöf og sáttameðferð samkvæmt 33. gr. og 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003 sem settar voru til bráðabirgða og lagt er til að falli úr gildi. Gera þurfti breytingar á núgildandi reglum vegna breytinga á barnalögum um skipta búsetu barns sem taka gildi um næstkomandi áramót.

Í drögum að reglugerðinni er verið að samræma núgildandi reglur um ráðgjöf og sáttameðferð að þeim breytingum sem gerðar voru á barnalögum með lögum nr. 28/2021. Auk þess er lagt til að skerpa á ákveðnum atriðum er varða ráðgjöf og sáttameðferð, svo sem  varðandi undirbúning og framkvæmd sérfræðiráðgjafar og sáttameðferðar og ákvæða um umfang og lok sáttameðferðar.

Þá er jafnframt lagt til að setja ný ákvæði um samtal að frumkvæði barns í reglugerð í samræmi við breytingar á barnalögum sem gerðar voru með lögum nr. 28/2021. Samkvæmt þeim breytingum sem gerðar voru á barnalögum og taka gildi um næstkomandi áramót getur barn snúið sér til sýslumanns með ósk um að sýslumaður boði foreldra til samtals um fyrirkomulag forsjár, lögheimilis, búsetu og umgengni. Markmið samtals er að leiðbeina barni og foreldrum og leitast við að stuðla að fyrirkomulagi sem er barni fyrir bestu að teknu tilliti til sjónarmiða barnsins.

Ennfremur er í drögum að reglugerðinni að finna ákvæði um ráðgjöf skv. 46. gr. b barnalaga sem varðar umgengni við aðra þegar annað foreldra barns er látið eða bæði.

Opið verður fyrir umsagnir til og með 6. desember 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira