Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Styrkir til verkefna og rekstrar auglýstir til umsóknar

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um verkefnastyrki á sviði umhverfis- og auðlindamála og styrki til rekstrar félagasamtaka sem starfa á sviði umhverfismála. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til kl. 23:59, 7. janúar 2022. Skila skal inn umsóknum á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Styrkir til verkefna

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitir árlega styrki til verkefna sem falla undir málefnasvið þess. Styrkirnir eru ætlaðir til verkefna á vegum aðila utan ríkisstofnana og er heildarfjárhæð til úthlutunar allt að  56 m.kr. en hver einstakur styrkur getur aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemur 10% af heildarstyrkfjárhæð hvers árs.

Ráðuneytið veitir eingöngu styrki til verkefna sem sannanlega falla undir verkefnasvið þess og áskilur sér rétt til að áframsenda umsóknir til annarra ráðuneyta eða stofnana, í samræmi við leiðbeiningaskyldu stjórnvalda, falli verkefni betur að málaflokkum þeirra. Athygli er vakin á að ekki eru veittir styrkir til verkefna sem hafa fjárhagslegan ávinning að markmiði fyrir umsækjanda, fyrir meistaraprófs- og doktorsverkefni eða fyrir nefndarsetu.

Hafi umsækjandi áður fengið styrk til verkefnis þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis og ráðstöfun styrkfjárins til að ný umsókn komi til greina.
Upplýsingar um mat á umsóknum er að finna í 6. gr. úthlutunarreglna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Reglur um úthlutun verkefnastyrkja

Almennir rekstrarstyrkir til félagasamtaka

Markmið styrkjanna er að stuðla að opnum og frjálsum skoðanaskiptum um umhverfis- og auðlindamál og að efla almenna vitund um gildi umhverfismála. Heildarfjárhæð til úthlutunar árið 2022 er 49 m.kr.

Umsækjendur rekstrarstyrkja ráðuneytisins þurfa að uppfylla skilyrði sem fram koma í reglum um almenna rekstrarstyrki til frjálsra félagasamtaka sem starfa að umhverfismálum.

M.a. þurfa samtökin að hafa umhverfismál sem eitt af meginmarkmiðum félagsins skv. samþykktum þess, vera opin fyrir almennri aðild einstaklinga eða félagasamtaka (sé um regnhlífarsamtök að ræða), þau skulu ekki starfa í hagnaðarskyni, hafa að lágmarki 30 félaga, hafa opið og endurskoðað reikningshald og taka saman ársskýrslur. Þá er í reglunum sett fram viðmið sem höfð eru til hliðsjónar við úthlutun styrkjanna.

Umsækjendur sem hlutu rekstrarstyrk fyrir árið 2021 skulu skila yfirliti yfir ráðstöfun styrksins með umsókninni.

Reglur um úthlutun almennra rekstrarstyrkja til félagasamtaka

Sótt um á eyðublaðavef Stjórnarráðsins

Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Hægt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli frá Þjóðskrá. Umsækjendur skrá sig inn og finna þar viðeigandi eyðublað undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Úthlutað er einu sinni á ári í byrjun árs.

Umsóknir sem ekki uppfylla skilyrði auglýsingar og úthlutunarskilamála samkvæmt meðfylgjandi reglum verða ekki teknar til umfjöllunar.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 545 8600 eða í tölvupósti á netfangið [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira