Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2021 Forsætisráðuneytið

Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur skipað

Ríkisráð kom saman til tveggja funda á Bessastöðum í dag. Á fyrri fundinum veitti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fyrsta ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur lausn frá störfum. Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur var svo skipað á seinni fundinum. Þar undirritaði forseti einnig úrskurð um skiptingu starfa ráðherra sem er með eftirfarandi hætti:

  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
  • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra
  • Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
  • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra
  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra
  • Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
  • Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra
  • Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Í tengslum við myndun ríkisstjórnarinnar verða gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins auk þess sem ráðherrum fjölgar um einn og verða tólf. Ráðuneytum verður fjölgað úr tíu í tólf og verkefni færð milli ráðuneyta.

Ný ráðuneyti munu taka til starfa um eða eftir áramót. Skipan ráðuneyta verður eftirfarandi:

Forsætisráðuneyti

Helstu breytingar eru þær að mannréttindamál færast til ráðuneytisins frá dómsmálaráðuneytinu.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru óbreytt.

Innviðaráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu og verkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þá færast húsnæðis- og mannvirkjamál til ráðuneytisins frá félagsmálaráðuneytinu og skipulagsmál frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Verkefni nýs ráðuneytis byggja að mestu á grunni þeirra verkefna sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sinnti í síðustu ríkisstjórn en skógrækt og landgræðsla færast til ráðuneytisins frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða að mestu þau sömu og hafa verið hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en orkumál og auðlindanýting færast til ráðuneytisins frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Utanríkisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu.

Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins byggja á grunni þeirra verkefna sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra sinntu í síðustu ríkisstjórn, þ.á m. menningarmál sem færast frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Helstu verkefni ráðuneytisins verða málefni skóla, íþrótta- og æskulýðsmála og málefni barna.

Félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru að mestu þau sömu og verið hafa hjá félagsmálaráðuneytinu en þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd færist yfir í ráðuneytið frá dómsmálaráðuneytinu.

Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti

Helstu verkefni nýs ráðuneytis verða málefni vísinda- og rannsókna, þ. á m. háskóla, iðnaðar og nýsköpunar og fjarskiptamál. Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verður með aðsetur í mennta- og menningarmálaráðuneyti þar til hið nýja ráðuneyti tekur til starfa.

Innanríkisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu og dómsmálaráðuneytið hefur.

Heilbrigðisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru óbreytt.

Formenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs undirrituðu í dag sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf. Í sáttmálanum birtist sameiginlegt leiðarstef flokkanna um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða. Þá er í sáttmálanum að finna verkefnalista með rúmlega 200 verkefnum á fjölbreyttum sviðum samfélagsins.

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (síða)

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (PDF)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum