Hoppa yfir valmynd
1. desember 2021 Matvælaráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Record in Iceland hlaut Útflutningsverðlaun á degi íslenskrar tónlistar

Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og Bryndís Jónatansdóttir frá ÚTÓN tóku á móti verðlaununum - mynd

Fyrsti desember er dagur íslenskrar tónlistar og samkvæmt hefð veitti Samtónn viðurkenningar tileinkaðar deginum.

Record in Iceland hlaut Útflutningsverðlaun Dags íslenskrar tónlistar og Icelandair fyrir öfluga kynningu til erlendra útgefenda og tónlistarmanna á kostum þess að taka upp tónlist á Íslandi. Forsendurnar fyrir þessari sókn eru mikill mannauður tónlistar- og tæknifólks, fullkomin hljóðver og íslenska endurgreiðslukerfið en samkvæmt því geta útgefendur fengið endurgreiddan allt að 25% af þeim kostnaði sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi. Kynningarátakið Record in Iceland hefur verið unnið í samvinnu ÚTÓN, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, utanríkisráðuneytis, Íslandsstofu og Reykjavík tónlistarborgar.

Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og Bryndís Jónatansdóttir frá ÚTÓN tóku á móti verðlaununum.

Lilja Alfreðsdóttir: „Ég hlakka mikið til að vinna með íslensku tónlistarfólki að því að efla og styrkja íslenskt tónlistarlíf og tónlistariðnað. Sóknarfærin eru mörg eins og aukin umsvif vegna hljóðritana fyrir erlenda aðila sanna. Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir strangar ferðatakmarkanir vegna Covid-veirunnar þannig að við eigum mikið inni.“

Aðrir verðlaunahafar á Degi íslenskrar tónlistar voru Arnar Eggert Thoroddsen sem fékk heiðursverðlaun, Græni hatturinn var verðlaunaður fyrir tónleikahald, Unnur Sara Eldjárn hlaut nýsköpunarverðlaun og sérstök hvatningarverðlaun féllu í skaut verkefnisins Stelpur rokka!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum